Magnús Ingi Magnússon, veitingamaður, hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands.
Magnús er fæddur árið 1960. Hann hefur rekið sitt eigið fyrirtæki um árabil. Magnús er kvæntur Analisu Montecello.
Í fréttatilkynningu kemur fram að Magnús er matreiðslumeistari og veitingamaður. Hann gekk í Hótel- og veitingaskólann, vann svo á millilandaskipum og „tók svo kokkinn á Hótel Sögu,“ eins og hann sjálfur orðar það í tilkynningunni.
Eftir það vann hann á veitingahúsum í Reykjavík, sem skólabryti og kennari að Laugum í Þingeyjarsýslu og var þar kokkur á sumrin. Magnús vann einnig um tíma á Royal Garden-hótelinu í Þrándheimi í Noregi.
Árið 1988 stofnaði hann sinn eigin veitingarekstur og rak veitingahúsið Árberg í Ármúla, veitingahúsið Munaðarnes í Borgarfirði, Hótel Eldborg á Snæfellsnesi og mötuneyti hjá ríkisstofnunum.
Svo starfaði hann á skemmtiferðaskipinu Black Watch og rak veitingahúsið Sjanghæ við Laugaveg. Síðustu árin hefur Magnús rekið Sjávarbarinn og Texasborgara úti á Granda og veisluþjónustuna Mína menn samhliða því.
Síðustu ár hefur hann svo gert sjónvarpsþættina Eldhús meistaranna sem sýndir eru á ÍNN.
Magnús segist ætla að fjármagna framboð sitt sjálfur. Meðmælalistar liggja frammi á Texasborgurum. „Ég býð öllum sem skrifa undir Texas-ostborgara með frönskum fyrir viðvikið,“ stendur í tilkynningunni.