Ólafur Hand gagnrýnir Reykjavíkurborg

Ekki má gefa hjálma í grunnskólum í Reykjavík.
Ekki má gefa hjálma í grunnskólum í Reykjavík. Mynd/Eimskip

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segist vægast sagt hallærislegt að Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, haldi því fram að börn með hjálma sem gefnir eru af Kiwanis og Eimskip séu gangandi auglýsing. Þessi fullyrðing lýsi einfaldlega vanþekkingu hennar á málinu.

„Sigrún er ein af fjölmörgum embættismönnum borgarinnar sem hefur verið falið, undanfarin ár, að gagnrýna þetta samfélagslega verkefni Kiwanis fyrir hönd þeirra hjá borginni sem ekki þora eða vilja koma fram og tjá sig um málið af ótta við að missa atkvæði í kosningum.

Enda er samkvæmt könnun sem Gallup framkvæmdi yfirgnæfandi meirihluti fólks á barneignaraldri í Reykjavík fylgjandi þessari gjöf frá Kiwanis,“ segir í færslu hans á Facebook sem sjá má neðst í fréttinni. 

Ólafur segir hjálmana vissulega merkta Eimskip og segir hann það gert í samræmi við þær reglur sem um það gilda. Framleiðendur verði að merkja vörur sínar samkvæmt lögum.

„Eimskip hefur unnið mikla vinnu með góðri og leiðbeinandi aðstoð Neytendastofu á sínum tíma og gætti þess að uppfylla allar kröfur um merkingar og öryggi. Hjálmarnir uppfylla kröfur um CE merkingu og eins var farið lengra í því að tryggja gæði og öryggi með því að fá þá vottaða hjá BSI (British Standards Institution),“ skrifar Ólafur.

Margir hafa ekki efni á að kaupa hjálm

Ólafur segir að borgarstjóri hafi ítrekað verið beðinn um að ræða þessi mál svo finna megi lausn á þessu „vandræðalega“ banni Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hafi einnig verið boðið að vera beinn þátttakandi í verkefninu en því hafi hún hafnað. Hann segir góð og gild rök vera fyrir því að hjálmarnir séu afhentir í skólum:  

„Það tryggir að öll börn fá hjálm og ekkert barn þarf að mæta grátandi í skólann af því að foreldrar þess komust ekki til að ná í hjálminn. Börnin fá kennslu og upplýsingar um hvernig nota eigi hjálminn og hvernig stilla á hann rétt. Þeirri fræðslu hefur oftar en ekki verið sinnt af lögreglu, læknum, sjúkraflutningamönnum, skólahjúkrunarfræðingum og öðru fagfólki,“ skrifar Ólafur. 

„Það er því miður sorgleg staðreynd að margir foreldrar hafa hreinlega ekki efni á því að kaupa hjálm fyrir börnin sín. Oft höfum við fengið símtöl frá lögreglu, læknum og kennurum sem þakka okkur fyrir þessa gjöf. Þannig símtöl koma ætíð í kjölfar þess að barn dettur eða verður fyrir bíl og hjálmurinn bjargar lífi barnsins.

Einnig fáum við símtöl frá foreldrum þar sem þeir þakka fyrir sig og segja að þessi gjöf hafi hjálpað til við að barn þeirra gat eignast hjól. Eimskip kemur hvergi nærri því að ræða við eða fræða börnin,“ skrifar Ólafur einnig. 

Hvetur til aukinna hjólreiða en stuðlar óbeint að minni hjálmanotkun

„Margir hafa spurt „því hættið þið ekki að merkja hjálmanna?“ Svarið er að Eimskip ber ábyrgð á hjálmunum og verður að merkja þá samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Það verður að vera hægt að rekja vöruna til þess er ber ábyrgð á henni. Ég vil einnig benda á að vörumerki Eimskips er eins lítið sýnilegt og hugast getur á bakhlið hjálmsins og hverfur nánast í hönnun hans.

Aðrir hafa spurt „Því hættið þið þessu ekki úr því að Borgarstjórn hefur ákveðið að gagnrýna þetta verkefni svona harðlega“ Svarið við því er einfalt. Að fá aðeins eitt símtal þar sem foreldri þakkar okkur fyrir að hafa, ásamt Kiwanis og skólanum sem barn þess gengur í, bjargað lífi þess eftir umferðarslys er næg ástæða til að halda þessu verkefni áfram og berjast fyrir því að borgarstjóri opni augu sín fyrir þörfinni á því að fyrirtæki taki samfélagslega þátt í öryggi barna okkar.

Borgarstjóri hvetur til aukinna hjólreiða en á hinn boginn stuðlar hann óbeint að því að notkun á hjálmum dragist saman og skemmir með því óeigingjarna þrotlausa vinnu Kiwanis sem staðið hefur í yfir áratug við að auka öryggi okkar verðmætustu þegna. Við skulum svo vona að borgarstjóri þurfi ekki að hafa það á samviskunni að barn slasist vegna skammsýni hans þegar hægt hefði verið að koma í veg fyrir það og allir hefðu getað unnið þetta skemmtilega verkefni í sameiningu,“ skrifar Ólafur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka