Föst búseta í einstökum byggðarlögum á landsbyggðinni gæti veikst talsvert innan 20 ára.
Að sögn Vífils Karlssonar hagfræðings eru bæjarfélögin Akureyri, Ísafjörður, Stykkishólmur, Borgarnes, Drangsnes og Siglufjörður á meðal þeirra bæjarfélaga, þar sem hætt er við hækkandi húsnæðisverði vegna ásóknar utanbæjarfólks.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Vífill vísbendingar vera um að utanbæjarfólk óski þess nú, í meira mæli en áður, að eignast frístundahús í þéttbýli á landsbyggðinni. Þetta hafi áhrif á húsnæðisverð í bæjarfélögunum sem leiði til þess að það hægist á endurnýjun íbúa á vinnumarkaði, þar sem víða fáist ekki góð lán til nýbygginga utan höfuðborgarsvæðisins.