Þökk sé sparperum og sparneytnari heimilistækjum þá hefur árleg meðaltalsnotkun heimila á rafmagni lækkað úr 4,9 MWh árið 2009 niður í 4,5 MWh árið 2014. Þetta kemur fram í nýrri raforkuspá orkuspárnefndar sem áætlar að orkunotkun hvers heimilis muni lækka niður í 4 MWh á næstu árum.
Helstu orsakir minni raforkunotkunar á heimilum landsmanna eru breytingar í lýsingu þar sem mun orkugrennri perur en glóperurnar eru komnar til sögunnar og heimilistæki hafa orðið sparneytnari. Á móti kemur að tækjum á heimilum hefur farið fjölgandi en flestar nýjar tækjategundir eru orkugrannar, segir í frétt Orkustofnunar um málið.
Í raforkuspánni kemur fram að lengi vel fór almenn heimilisnotkun utan rafhitunar vaxandi og náði hún hámarki árið 2009 er hún var 4,9 MWh/heimili að meðaltali. Síðan þá hefur notkunin minnkað jafnt og þétt og var komin í 4,5 MWh/heimili árið 2014 og hefur ekki verið jafn lítil í áratug
Haldi þróunin áfram eins og spáin gerir ráð fyrir þá nemur árlegur þjóðhagslegur sparnaður um 2 milljörðum króna. Þetta hefur líka það í för með sér að nú á tímum umframeftirspurnar eftir raforku þá hafa orkufyrirtækin 130 GWst til sölu án þess að leggja í kostnað við nýjar virkjanir. Til samanburðar er orkuvinnsla Steingrímsstöðvar 122 GWst/ári.
Sjá nánar í frétt Orkustofnunar