Gjarnan sömu menn á nýrri kennitölu

Mikil þörf er á iðnaðarmönnum á Íslandi þessi misserin. Innflutningur …
Mikil þörf er á iðnaðarmönnum á Íslandi þessi misserin. Innflutningur á vinnuafli kemur í síauknum mæli frá löndum austar í Evrópu en áður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Algengt er að sömu einstaklingarnir skjóti upp kollinum aftur og aftur í tengslum við brotastarfsemi fyrirtækja. Gjarnan er um að ræða sömu einstaklinga en með nýtt félag á nýrri kennitölu. Þá er einnig algengt að fyrirtækjum sem stunda brotastarfsemi eins og bókhalds- eða skattalagabrotum fylgi önnur brot. Þar á meðal geta verið svört atvinnustarfsemi, brot á kjarasamningum, undanskot hverskonar og svo ítrekað kennitöluflakk. Þetta segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, í samtali við mbl.is.

Í síðustu viku var greint frá því að fimm einstaklingar hefðu verið hnepptir í gæsluvarðhald vegna gruns um bókhalds- og skattalagabrot í tengslum við starfsemi verktakafyrirtækja. Þá var einnig greint frá því að til rannsóknar væri hvort hinir handteknu hefðu gerst sekir um mansal.

Frétt mbl.is: 5-10 fyrirtæki til rannsóknar

Straumurinn færist austar í Evrópu

Halldór segir að starfsmenn ASÍ hafi í vaxandi mæli séð ýmiskonar brotastarfsemi í byggingar- og mannvirkjageiranum. Segir hann að þannig sé talsvert um að verið sé að semja við verktaka og starfsmannaleigur frá Austur-Evrópu þar sem launakjör og réttindi séu mun lakari en þekkist hér á landi. „Starfsmenn eru í vaxandi mæli að koma frá fátækasta og vanþróaðasta vinnumarkaði EES, t.d. Rúmeníu og Búlgaríu,“ segir Halldór.

Enn eru þó flestir erlendir starfsmenn hér á landi frá Póllandi, en Halldór segir að þróunin sé í að erlent vinnuafl komi austar úr álfunni. Þar á meðal séu líka Króatía, Slóvakía og Tékkland.

Óboðlegar aðstæður fylgja gjarnan svona málum

Algengast er að brotið sé á starfsfólki með því að greiða laun langt undir íslenskum kjarasamningum, að sögn Halldórs. Samkvæmt lögum sé það alveg óháð því hvort um sé að ræða erlent launafólk eða erlend fyrirtæki. Hér beri að greiða samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Segir Halldór að þá hafi félagið ítrekað séð dæmi um að ekki sé greitt fyrir yfirvinnu eða vaktaálag.

Til viðbótar við kjarasamningsbrot segir Halldór að vinnu- og öryggisaðstæður séu stundum áfátt. „Það fylgir gjarnan svona málum að starfsmenn búa við óboðlegar aðstæður,“ segir hann.

Dæmi um mál á mörkum þess að flokkast sem mansal

Aðspurður hvort ASÍ hafi mikið orðið vart við mansalsmál í tengslum við erlent vinnuafl sem kemur hingað til lands segir Halldór að slík dæmi þekkist, en að mansal sé mjög stórt orð sem nota beri með varúð. „En við sjáum dæmi sem eru á mörkum þess að flokkast sem slíkt,“ segir Halldór.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Styrmir Kári

Lýsir hann slíkum dæmum þannig að erlendir starfsmenn séu fengnir hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja eða starfsmannaleiga. Þegar þeir eru komnir hingað til lands eiga þeir allt sitt undir þessum fyrirtækjum. „Þú ert í erlendu ríki og háður fyrirtækinu m.a. um húsnæði, laun og að komast aftur heim til þín. Þá er stutt í að um nauðung sé að ræða,“ segir hann.

Starfsmenn óttaslegnir

Starfsmenn ASÍ og fleiri stéttarfélaga reyna oft að nálgast þessa aðila, en Halldór segir að þegar slíkt sé gert sjái þau oftar en ekki að viðkomandi séu mjög óttaslegnir og hafi áhyggjur af stöðu sinni. Erfitt sé að finna beinharðar sannanir um slíka starfsemi, en Halldór segir að ef miðað sé við löndin í kringum okkur þá þekkist að svona starfsemi tengist oft skipulagðri glæpastarfsemi.

Aðspurður hvort mörg íslensk fyrirtæki stundi starfsemi sem hann vilji flokka á gráu eða svörtu svæði segir Halldór að flest íslensku fyrirtækin virði lög og kjarasamninga þótt auðvitað séu líka brotafyrirtæki. Hann bætir þó við að erlendu félögin sem hingað komi starfi oftast í skjóli innlendra fyrirtækja sem undirverktakar. „Hver ber þá ábyrgðina?“ spyr hann og segir að þarna komi enn og aftur upp krafa verkalýðshreyfingarinnar um keðjuábyrgð þar sem yfirverktakar beri ábyrgð á að undirverktakar fari að lögum.

Endaði með 25 þúsund króna sekt

Halldór nefnir að á síðustu misserum hafi nokkur mál ratað í fjölmiðla. Fyrst beri að nefna mansalsmálið á Vík sem virðist vera hreint dæmi um mansal. Svo hafi verið sagt frá ungri stúlku frá Ungverjalandi sem ráðin var á sveitabýli til að vinna 10-12 tíma á dag og fékk að launum 46 þúsund á mánuði. Halldór nefnir einnig eldra mál þar sem rúmenskir járnamenn hafi verið með samning sem „gerviverktakar“ og haft 10 evrur á tímann og innifalið í því hafi verið orlof, tryggingar og fleira. Síðastnefnda málið endaði með sekt upp á 25 þúsund krónur með því skilyrði að mennirnir yrðu ráðnir beint til verktakafyrirtækisins að sögn Halldórs. Flest þeirra mála sem ASÍ skoðar koma þó aldrei fyrir í fjölmiðlum að hans sögn.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna áður komið við sögu lögreglu

Í því máli sem kom upp í síðustu viku er um að ræða fimm einstaklinga sem settir voru í gæsluvarðhald. Komið hefur fram að það séu meðal annars forsvarsmenn fyrirtækjanna Kraftbindinga og Brotafls. Fréttatíminn sagði frá því eigandi Brotafls hefði árið 2010 verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi árið 2010 fyrir skattalagabrot og þá hafi hann verið ákærður í mansalsmáli á Suðurnesjum þar sem fimm Litháar voru fundnir sekir en eigandinn sýknaður.

Eigandi Kraftbindinga hefur áður komið við sögu lög­reglu og var meðal ann­ars dæmd­ur ásamt tveim­ur öðrum árið 2012 fyr­ir rækt­un á 436 kanna­bis­plönt­um. Í aðgerðum lögreglunnar í þessu máli fannst einnig kannabisræktun.

Frétt mbl.is: 5-10 fyrirtæki til rannsóknar

Frétt mbl.is: Verktakar grunaðir um mansal

Frétt mbl.is: Meint brot skipta hundruðum milljóna

Frétt mbl.is: Fimm hnepptri í gæsluvarðhald

Frétt mbl.is: Möguleg fórnarlömb vinnumansals

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert