Þakkar hjálminum að ekki fór verr

Ómar Ragnarsson á rafmagnshjólinu Sörla í fyrra sumar.
Ómar Ragnarsson á rafmagnshjólinu Sörla í fyrra sumar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég blæs á það að menn hætti að hjóla ef þeir eru skyldaðir til að nota hjálm. Þetta verður að þvílíkum vana að ég hef hvað eftir annað gleymt því að taka hjálminn af mér,“ segir Ómar Ragnarson, fréttamaður og skemmtikraftur sem lenti í árekstri á hjóli sínu sl. föstudag.

Ekið var á Ómar á gangbraut við Grensásveg er ökumaður blindaðist af kvöldsólinni, með þeim afleiðingum að Ómar stangaði og braut framrúðu bílsins áður en hann kastast í götuna meira en tíu metrum frá gangbrautinni.

Frétt mbl.is: Ekið á Ómar Ragnarsson

Ómar var með hjálm er slysið varð og skrifaði hann í kjölfar slyssins pistil á bloggsíðu sína þar sem hann þakkar reiðhjólahjálminum að ekki fór verr. Hefur pistillinn vakið mikil viðbrögð. „Ég hef fengið mörg símtöl frá fólki sem hefur lent í sambærilegum slysum þar sem hjálmurinn hefur bjargað því,“ segir Ómar sem einnig hefur fengið athugasemdir við pistil sinn frá þeim sem telja hjálminn hafa gert lítið gagn.

Grundvallarmunur á höfðinu og öðrum líkamshlutum

„Það er grundvallar munur á höfðinu og öðrum líkamshlutum,“ segir Ómar og bendir á að hann hafi sloppið jafnvel og raun bar vitni af að hann kom flatur niður og álagið af högginu hafi því dreifst um líkamann. „Ég laskast frá hæl og upp í haus, en það brotnar ekkert bein. Ég er í furðugóðu lagi og bý að því að hafa beinbrotnað í desember, þannig að ég kem inn í þetta mjög vel undirbúinn,“ segir Ómar og hlær.

Þegar um höfuðhögg sé að ræða, líkt og þegar hjálmur hans skellur í bílrúðuna og svo aftur í götuna, þá sé hins vegar ekki um það að ræða að höfuðið geti dreift álaginu með sama hætti og líkaminn geti gert. „Annars væru ekki svona mörg höfuðáverkaslys eða þau svona alvarleg.“

Ómar segir að honum finnist hann nú vera að að ganga í gegnum sömu umræðuna og þegar bílbeltaskyldan var leidd í lög. „Ein rökin fyrir því að það eigi ekki að skylda fullorðið fólk til að nota hjálm er að það gera þetta ekki allar þjóðir.“ Þá segi aðrir ekkert að marka þó að börn hafi verið skylduð til að vera með hjálm fyrir rúmlega tuttugu árum þar sem þáverandi ráðherra hafi ekki vitað hvað hann var að gera.  

„Það er augljós mótsögn í því að börn séu skylduð til að vera með hjálm en ekki fullorðnir,“ segir Ómar og telur alla hjólreiðamenn eiga að nota  hjálm. Aldurinn hefði ekki skipt neinu máli í hans tilfelli. „Ég hefði lent í þessu slysi hvort sem ég væri 16 ára eða 76 ára,“ segir hann og hyggst fjárfesta í nýjum hjálmi og halda áfram að hjóla um leið og hann verði ferðafær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert