Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur á Landspítalanum, hefur dregið framboð sitt til embættis forseta Íslands til baka.
Vigfús greindi frá þessu í viðtali við fréttastofu RÚV. Í spjalli við mbl.is í dag sagðist hann þungt hugsi yfir ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að bjóða sig fram á nýjan leik.
Einn frambjóðandi til viðbótar hefur hætt við að forsetaframboð, eða Guðmundur Franklín Jónsson.
Flestir þeirra sem hafa tilkynnt um framboð sitt til embættis forseta Íslands ætla að halda sig við ákvörðun sína, þrátt fyrir blaðamannafundinn sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hélt í dag.
Þannig hafa Andri Snær Magnason, Elísabet Jökulsdóttir, Benedikt Kristján Mewes, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon og Sturla Jónsson öll sagst ætla að halda framboði sínu til streitu.
„Það hefur ekkert breyst hjá mér, ég hugsaði mig mjög vel um mánuðum saman og var kominn með ákveðna sýn sem mig langaði að leggja fram og standa mig og leggja fyrir kjósendur. Þetta hleypir ákveðnu lífi í næstu tvo mánuði,“ sagði Andri Snær Magnason við mbl.is fyrr í dag.
Frétt mbl.is: Andri Snær heldur ótrauður áfram
Hrannar Pétursson bauð Ólaf Ragnar velkominn í slaginn á meðan Halla Tómasdóttir sagði: „Ég treysti lýðræðinu til að velja úr þessum punkti nýjan tón og framtíðina.“
Elísabet Jökulsdóttir sagði Ólaf Ragnar vera meðvirkan og kippti sér lítið upp við framboð hans.
Frétt mbl.is: Segir Ólaf Ragnar meðvirkan
Þeir frambjóðendur sem liggja núna undir feldi vegna ákvörðunar Ólafs Ragnars eru Bæring Ólafsson og Heimir Örn Hólmarsson.
Í stuttu spjalli við mbl.is sagði Bæring ákvörðun Ólafs hafa komið honum mjög á óvart og að hann væri ekki maður orða sinna.