Hvorki utanríkisráðuneytið né ríkislögreglustjóri hafa fengið upplýsingar um Íslending sem á að hafa gengið til liðs við Ríki íslams ef marka má skjöl frá samtökunum sem lekið var til vestrænna fjölmiðla. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Íslendingur er sagður tilheyra samtökunum.
Bandaríska fréttastöðin NBC News og fleiri fjölmiðlar birtu fréttir upp úr skjölunum sem liðhlaupi úr Ríki íslams stal og lak til þeirra um helgina. Þar kemur meðal annars fram að Íslendingur hafi skráð sig í samtökin á árunum 2013 til 2014.
Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði mbl.is í dag að ráðuneytinu hafi engar upplýsingar borist um Íslending sem tilheyri hryðjuverkasamtökunum. Sömu upplýsingar fengust frá embætti ríkislögreglustjóra. Engar upplýsingar hafi borist frá erlendum samstarfsaðilum um að íslenskur ríkisborgari hafi gengið til liðs við Ríki íslams.
Í desember árið 2014 var sagt frá því að Sýrlendingur sem starfaði með Ríki íslams hafi fullyrt að íslenskur kvikmyndagerðarmaður hafi verið á meðal liðsmanna samtakanna. Hann hafi meðal annars gert áróðursmyndbönd fyrir þau.
Fjölskylda Íslendingsins sagði hins vegar í samtali við mbl.is engan möguleika á að hann ynni með Ríki íslams. Hann hafi hins vegar verið með myndefni undir höndum sem samtökin ásældust. Þau væru að reyna að komast að nafni hans með því að greina frá því að Íslendingur tilheyrði þeim.
Fyrri frétt mbl.is: Íslendingur sagður í Ríki íslams