Skýrari viðbrögð gegn skattaskjólum

Katrín Jakobsdóttir á Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir á Alþingi. mbl.is/Styrmir Kári

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, hefur kallað eftir skýrum pólitískum skilaboðum um að Alþingi sé alvara í að berjast gegn skattaskjólum og að þingið taki þátt í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um málefnið á Vesturlöndum.

Þetta kom fram í umræðu á Alþingi í dag um viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

Þarf að bregðast við ákallinu 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, tók undir það að þingið verður að bregðast alvarlega við ákalli um að stjórnvöld berjist gegn skattsvikum.

Í máli sínu rak hann hvað stjórnvöld hafa gert í þessari baráttu og hyggist gera. Hann ræddi m.a. um að Ísland hafi verið á meðal fyrstu þjóðanna sem undirrituðu OECD-staðalinn, gerðir hafi verið upplýsingaskiptasamningar, nú síðast í London 12. apríl, og að CFC-reglurnar hafi verið uppfærðar. Einnig sagði hann stjórnvöld hafa keypt gögnin sem skattrannsóknarstjóri hefur til meðferðar og þau muni gagnast í vinnunni sem framundan er.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann sagði mikilvægt að skattsvik verði upprætt og nefndi einnig að lífeyrissjóðir hafi komið við sögu í aflandssjóðum. „Þannig eru margir lífeyrisþegar á Íslandi óbeinir eigendur að sparnaði sem er vistaður í þessu umhverfi,“ sagði Bjarni.

„Við ættum fyrst og fremst að beina sjónum okkar að svikahröppunum. Ná í upplýsingar til að koma í veg fyrir leyndina og koma í veg fyrir skattsvikin.“

Vill fá upplýsingar úr bönkunum 

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að banna verði fólki að geyma fjármuni á aflandseyjum. „Það er yfirlýst af ESA af það sé ekkert sem kom í veg fyrir það í okkar lögum að við bönnum þetta og það eigum við að gera,“ sagði hann og bætti við að ná eigi í upplýsingar í bönkunum um þá sem geymi eða hafa geymt fjármuni í skattaskjólum.

Helgi spurði jafnframt hvort eðlilegt sé að Bjarni Benediktsson sé í forsvari í þessum málefnum og „hvort það sé trúverðugt eftir að upplýsingar sem hann sjálfan vörðuðu lágu ekki fyrir við síðustu Alþingiskosningar“.

Guðmundur Steingrímsson úr Bjartri framtíð.
Guðmundur Steingrímsson úr Bjartri framtíð.

Rík ástæða fyrir tortryggni 

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagðist hafa ríka ástæðu til að tortryggja stjórnarflokkana þegar kemur að þessum málum. Einnig nefndi hann að fyrir hrun hafi þeir talað upp það hátterni að fara með auðinn í aflandsfélög. „Þetta er ein ástæða tortryggninnar,“ sagði hann.

Vill smíða lög gegn skattaskjólum 

Fleiri þingmenn kölluðu fram á skýrari viðbrögð stjórnvalda í baráttunni gegn skattaskjólum.

„Ef það hefur einhvern tímann verið þörf á að sýna festu í að berjast gegn skattaskjólum er það núna,“ sagði Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, bætti við: „Við þurfum að rannsaka hverjir hafa nýtt sér skattaskjólin og komast að því hvað undanskotin hafa kostað. Við eigum að vinna með öðrum þjóðum í baráttunni gegn notkun skattaskjóla og smíða lög sem banna notkun skattaskjóla. Við verðum að ganga ákveðin til verks.“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Það finnst mér ómerkilegt“

Katrín Jakobsdóttir kallaði eftir því að Alþingi lýsi sínum pólitíska vilja til að ráðast í rannsókn á skattaskjólum. „Ég held að þetta sé eitt af málunum sem við þurfum að klára.“

Bjarni Benediktsson sagði ítrekað vegið að trúverðugleika ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir að margt hafi verið gert til að berjast gegn notkun skattaskjóla áður en Panamaskjölin voru gerð opinber.

„Það eru skýr merki um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem ætlar ekki að sætta sig við skattsvik. Hafi menn ekki heyrt mig segja það þá hef ég ítrekað látið það koma fram að við ætlum að nýta öll tækifæri til að sinna þessum hlutverkum betur,“ sagði hann.

„Menn vilja setja á sömu hilluna þá sem hafa gert hreint fyrir sínum dyrum og hina sem eru að fela sig og reyna að komast undan sanngjarni skattlagningu. Það finnst mér ómerkilegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert