Sprengisandur á Hringbraut

Sigurjón M. Egilsson hefur verið ráðinn ritstjóri Hringbrautar.
Sigurjón M. Egilsson hefur verið ráðinn ritstjóri Hringbrautar. SteinarH

Sigurjón M. Egilsson hefur verið ráðinn ritstjóri Hringbrautar og mun hann gegna starfi ritstjóra allra miðla, þ.e. sjónvarps, útvarps og netmiðla. „Ég fer alla vegna sjálfviljugur,“ segir Sigurjón þegar hann er spurður um flutninginn. „Mér líst mjög vel á þetta og mér finnst Hringbraut starfa með miklum sóma.“

Auk þess að verða ritstjóri allra miðla Hringbrautar mun Sigurjón taka virkan þátt í dagskrá útvarps og sjónvarps Hringbrautar og eins mun hann skrifa á vefinn hringbraut.is

 Sigurjón segir að hann kunni vel að meta vilja þeirra sem standa að Hringbraut til að auka umræðuna, líkt og nú sé þörf á.  „Við erum að fara inn í kosningar, bæði forsetakosningar og þingkosningar og þá er er þörf fyrir mikla umræðu og hún verður aukin ennfrekar með minni komu á Hringbrautina.“

Hann játar að hann hafi áhuga á að gera vissar breytingar Hringbrautinni. „Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrárstjóri sjónvarps, er ekki á landinu og ég á eftir að bera mínar hugmyndir undir hann áður en ég fer að segja frá þeim opinberlega, en eðlilega þá verða breytingar.“

Tekur Sprengisand með sér 

Útvarpsþátturinn Sprenginsandur í umsjón Sigurjóns, hefur notið mikilla vinsælda á Bylgjunni sl. ár. og segir Sigurjón að Sprengisandur muni fylgja honum yfir á Hringbrautina og verði þar bæði í útvarpi og sjónvarpi á sunnudögum klukkan tíu.

„Ég hef haft mjög gaman af þessu og þetta hefur gengið vel og mun halda áfram hiklaust.“ Stefnt sé á að vera með  fyrsta Sprengisandsþáttinn á Hringbraut næstkomandi sunnudag. „Ég er reyndar ennþá að semja um starfslokin en ef það gengur eftir, sem mér sýnist allt stefna í, þá verður Sprengisandur bæði í sjónvarpinu og á útvarpsstöðinni fm 89,1 á sunnudaginn klukkan tíu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert