„Þetta eru mjög merkileg og verðmæt söfn sum hver. Það er mikill áhugi á íslenskum söfnum erlendis, sérstaklega í Þýskalandi og á Norðurlöndunum, og dæmi um að þau hafi selst á margar milljónir,“ segir Magni R. Magnússon safnari, í Morgunblaðinu í dag, en fágæt söfn frímerkja, stimpilmerkja og póstkorta frá Íslandi verða á uppboði í næstu viku hjá dönskum og þýskum uppboðshúsum.
Eru sum þessara safna metin á nokkrar milljónir króna. Þannig er frímerkjasafn verðlagt á alls 42 þúsund evrur, um 5,8 milljónir króna, hjá þýska uppboðshúsinu Edgar Mohrmann & Co. Það uppboð fer fram 26. apríl. Sama dag er uppboð hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Þar er m.a. til sölu íslenskt safn stimpilmerkja sem metið er á 3,8 milljónir ísl. kr.