Veturinn 2015 til 2016 var fremur kaldur samanborið við aðra vetur það sem af er öldinni, en getur þó ekki talist mjög kaldur ef horft er til lengri tíma. Á Íslandi er vetur skilgreindur sem tímabilið frá desember til mars, en apríl og maí eru vormánuðir.
Sumar spannar júní, júlí, ágúst og september, en október og nóvember eru haustmánuðir.
Þrátt fyrir þessa formlegu skilgreiningu, sem Veðurstofa Íslands hefur stuðst við í meira en 80 ár, er dagurinn í dag síðasti vetrardagur samkvæmt almanaki og á morgun fögnum við sumardeginum fyrsta.
Sumardagurinn fyrsti er annar fimmtudagur eftir Leonisdag, sem er 11. apríl, og er aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en 25. apríl, að því er fram kemur í svari Trausta Jónssonar veðurfræðings á Vísindavef Háskóla Íslands.
„Það er hvergi sagt berum orðum í lögum, en menn virðast hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Því var dagurinn haldinn hátíðlegur. Meðal annars er vitað um sumargjafir að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir fóru að tíðkast,“ segir í öðru svari á Vísindavefnum, en þar var spurt af hverju við höldum sumardaginn fyrsta hátíðlegan. Sá sem svaraði var Árni Björnsson þjóðháttafræðingur.
Veðurstofa hefur tekið saman stutt yfirlit yfir liðinn vetur, en þar segir m.a. að meðalhiti í Reykjavík var +0,6 stig og er það +0,6 stigum ofan meðallags sömu mánaða 1961 til 1990, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
„Á Akureyri var meðalhiti vetrarins -1,8 stig og er það -0,1 stigi neðan meðallags áranna 1961 til 1990, en -1,6 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta var kaldasti vetur á Akureyri síðan 1999. Í Stykkishólmi var meðalhiti vetarins +0,1 stig, 1,0 stigi ofan meðallags áranna 1961 til 1990,“ segir í samantektinni.
Úrkoma var í meðallagi í Reykjavík en 30% umfram meðallag á Akureyri og 18% undir meðallagi í Stykkishólmi. Snjór var meiri en í meðalári og voru alhvítir dagar í Reykjavík 59 og 107 á Akureyri.
„Meðalvindhraði var töluvert minni en undanfarna tvo vetur en samt ekki fjarri meðallagi síðustu tíu vetra.
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var -4,8 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990, þrýstingur næstu tveggja vetra á undan var þó mun lægri.“