„Þekki fólk sem ætlar að gifta sig“

Óttar Proppé.
Óttar Proppé. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu ríkisstjórnarflokkana harðlega fyrir að hafa ekki greint frá því hvenær kjördagur verður í haust.

„Ég þekki fólk sem ætlar að gifta sig í haust og hefur áhuga á að vita hvernig haustið verður. Ég held að allir séu að bíða í ofvæni eftir dagsetningu á þessu langa hausti,“ sagði Óttar Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, sagðist hafa fullan skilning á alls kyns væntingum fólks og plönum. „Ég stóð sjálfur í því að gifta mig 2009 og fékk að vita það í brúðkaupsferðinni að það væri ekki þing. Ég hef fullan skilning á þessum sjónarmiðum.“

Fundur með stjórnarandstöðunni á föstudag

Hann vildi ekki gefa upp nákvæma dagsetningu á kjördeginum. „Ég og fjármálaráðherra hyggjumst eiga fund með forseta Alþingis í dag og í framhaldi fundum við með stjórnarandstöðunni á föstudag til að fara yfir þau mál sem við hófum umræðu á í síðustu viku, um að halda áfram með það samtal sem við þurfum að eiga,“ sagði forsætisráðherra. „Mikilvægast er að allir átti sig á því að hér er starfandi ríkisstjórn með mikinn meirihluta,“ hélt hann áfram hann og nefndi að nægur þingtími væri til stefnu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kosningarnar eru fyrir þjóðina

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það áríðandi að fá að vita hvaða áherslumál ríkisstjórnin vill leggja áherslu á. „Það er ekki hægt að sitja hér í nefndum og á fundum og láta eins og ekkert hafi í skorist. Kosningar eru ekki fyrir okkur, þær eru fyrir þjóðina þannig að hún geti valið sér nýtt þing, því hún vantreystir þessu,“ sagði hún.

Þúsundir Íslendinga búsettir erlendis

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sagði að merkileg staða væri komin upp. „Ríkisstjórnin verður hálfmánaðargömul á morgun. Hún færði fram rök fyrir því að hún væri með nokkur mál svo mikilvæg sem þyrfti að afgreiða. Hún hefur tekið hálfan mánuð að finna út úr því hvaða mál eru svona mikilvæg.“

Hann bætti við að þúsundir Íslendinga væru búsettir erlendis og þeir þurfi að vita hvenær kjördagur verður. „Er líklegt að það verði kosið í byrjun september?,“ spurði hann.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. mbl.is/Eggert

Vilja ekki láta draga sig á asnaeyrunum

Í máli Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, kom þetta fram: „Við viljum láta taka okkur alvarlega, ekki láta draga okkur á einhverjum asnaeyrum. Við munum ekki láta kyrrt liggja ef m enn ætla að haga sér svona áfram.“

Innri ósamstaða stjórnarflokkanna?

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tók undir mál hinna þingmannanna. „Er það þannig að tregðan til að upplýsa dagsetningu er vegna innri ósamstöðu stjórnarflokkanna? Er það vegna þess að þeir ná sér ekki saman um það hvenær þeir eiga að mæta kjósendum.?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert