Þrjár hlutu Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Salka Guðmundsdóttir og Linda Ólafsdóttir. Með þeim á …
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Salka Guðmundsdóttir og Linda Ólafsdóttir. Með þeim á myndinni er Brynhildur Björnsdóttir formaður dómnefndar og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Þrjár listakonur tóku við Barnabókaverðlaunum Reykjavíkurborgar í dag; Ragnhildur Hólmgeirsdóttur fyrir bestu frumsömdu barnabókina,  Koparborgina, sem jafnframt er hennar fyrsta skáldsaga, Salka Guðmundsdóttir fyrir þýðingu sína á Skuggahliðinni og Villtu hliðinni eftir Sally Green og Linda Ólafsdóttir fyrir myndskreytingar sínar í bókinni Ugla og Fóa og maðurinn sem fór í hundana eftir Ólaf Hauk Símonarson. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Höfða. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent með breyttu sniði en áður hafa skólayfirvöld í Reykjavík veitt barnabókaverðlaun fjörutíu og þrisvar sinnum. Verðlaunin voru nú veitt í þremur flokkum, en þau hafa verið sameinuð myndskreytiverðlaununum Dimmalimm.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir fékk barnabókaverðlaunin fyrir fyrstu skáldsögu sína, Koparborgin, sem Björt útgáfa gefur út. Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir m.a.; „Sagan er einstaklega vel skrifuð, spennandi og dulúðug og býður upp á galdra, hetjur og hrylling en líka vináttu og von.“

Salka Guðmundsdóttir fékk verðlaunin fyrir þýðingu sína á bókunum Skuggahliðin og Villta hliðin eftir bresku skáldkonuna Sally Green sem JPV útgáfa gefur út. Í umsögn dómnefndar um þýðinguna segir m.a.; „Sölku Guðmundsdóttur tekst með mikilli prýði að fanga myrkt og seiðandi andrúmsloft sögunnar yfir á íslensku, en í henni segir frá baráttu tveggja nornasamfélaga þar sem útskúfun og fordómar eru daglegt brauð.“

Myndskreytiverðlaunin komu í hlut Lindu Ólafsdóttur fyrir teikningar og myndir í bókinni Ugla og Fóa og maðurinn sem fór í hundana sem Sögur útgáfa gefur út. Í umsögn dómnefndar segir m.a.; „Gleðin í myndunum bætir í húmorinn í textanum og myndirnar segja líka sína eigin sögu.“

Við verðlaunaafhendinguna í Höfða í dag sungu nemendur í Tónlistarskólanum í Reykjavík lög úr óperunni Hlina Kóngssyni og sigurvegarar úr Stóru upplestrarkeppninni lásu upp úr verðlaunabókunum.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru nú veitt í fyrsta sinn eftir að sameinuð voru Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur og Dimmalimm- myndskreytiverðlaunin. Verðlaunin  þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á gildi góðra bókmennta í uppeldisstarfi og á metnaðarfullri útgáfu barnabóka. Valnefnd var að þessu sinni skipuð Brynhildi Björnsdóttur formanni, Jónu Björgu Sætran borgarfulltrúa, Gunnari Birni Melsted grunnskólakennara, Davíð Stefánssyni rithöfundi og Kristínu Arngrímsdóttur myndlistarkonu og rithöfundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka