Rúmlega hundrað fjölmiðlamenn komu til Íslands í skipulagðar fjölmiðlaferðir á árinu 2015 og yfir 520 blaðamenn fengu beina aðstoð við að skipuleggja Íslandsferðir sínar. Í kjölfar þess birtust í heildina um 750 greinar í erlendum fjölmiðlum og náði umfjöllun um landið til rúmlega 1,3 milljarða manna.
Þetta kemur fram í ársskýrslu Íslandsstofu þar sem finna má yfirlit yfir þau verkefni sem unnin voru á árinu 2015 á vegum stofunnar. Fjallað er um skýrsluna í Morgunblaðinu í dag.
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, segir greinar og umfjallanir í erlendum miðlum áhrifameiri en auglýsingar. Virði þeirra umfjallana sem birtust í erlendum miðlum um Ísland árið 2015 var metið á yfir 84 milljónir evra. „Miðað er við plássið sem umfjöllunin og auglýsingin tæki í viðkomandi blaði og hvað það hefði kostað ef við hefðum greitt fyrir þetta í auglýsingum talið – þetta er virðið sem við fáum út úr því,“ bætir hún við, en þegar blaðagrein birtist um Ísland sé hún 2,6 sinnum meira virði en auglýsing sem greitt er fyrir.