23 vildarbörn fara í skemmtiferð

Styrkþegar ásamt stjórnendum Vildarbarna við úthlutun í morgun.
Styrkþegar ásamt stjórnendum Vildarbarna við úthlutun í morgun. mbl.is

23 börnum og fjölskyldum þeirra, samtals um 120 manns, var afhentur ferðastyrkur úr sjóðnum Vildarbörn Icelandair í dag, sumardaginn fyrsta.

Starfsemi Vildarbarna Icelandair byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason, eiginkonu Sigurðar Helgasonar, sem lengi var forstjóri Flugleiða og nú stjórnarformaður Icelandair Group, en Peggy hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Hún situr í stjórn Vildarbarna Icelandair og er Sigurður formaður stjórnarinnar. Vigdís Finnbogadóttir er verndari sjóðsins.

Markmið sjóðsins er að gefa langveikum börnum, foreldrum þeirra og systkinum, tækifæri til þess að fara í draumaferð sem þau ættu annars ekki kost á.

Alls hafa 550 fjölskyldur notið stuðnings frá sjóðnum frá stofnun hans fyrir 13 árum og úthlutunin í dag var sú 26. í röðinni. Líkt og við úthlutun styrkjanna undanfarið afhentu Sambíóin börnunum bíómiða.

Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með beinu fjárframlagi Icelandair, frjálsum framlögum félaga í Saga Club Icelandair sem geta gefið af Vildarpunktum sínum, með söfnun myntar um borð í flugvélum Icelandair, sölu á Vildarenglinum um borð í vélum Icelandair og söfnunarbaukum á Keflavíkurflugvelli og söluskrifstofum Icelandair. Einnig koma til frjáls framlög og viðburðir, segir í tilkynningu.

Í hverjum styrk frá sjóðnum felst skemmtiferð fyrir barnið og fjölskyldu þess, og er allur kostnaður greiddur - flug, gisting, dagpeningar og aðgangseyrir að sérstökum viðburði sem barnið óskar sér. Að meðaltali eru fimm manns í hverri fjölskyldu og því hafa um 2750 einstaklingar farið í ferð á vegum sjóðsins. Jafnan hafa margar fjölskyldanna valið að fara til Flórída og heimsækja Disneyland og aðra skemmtigarða þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert