Hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson hafa undanfarin ár fjármagnað fjárfestingar í Evrópu og á Íslandi með fé frá félagi skráðu í Panama. Þetta kemur fram í gögnum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca sem Kjarninn, Stundin og Reykjavik Media hafa rannsakað og fjalla ítarlega um í dag.
Í umfjöllun Stundarinnar segir að gögn sem rýnt hafi verið í, leiði í ljós að hjónin „geymdu milljarða króna í skattaskjólinu Panama í Mið-Ameríku.“
Samkvæmt umfjöllun í Kjarnans um málið heitir félagið í Panama Guru Invest og var stofnað haustið 2007. Hefur hlutafé þess frá upphafi verið að fullu í eigu Ingibjargar. Hins vegar fékk Jón Ásgeir umboð til að skuldbinda félagið, ásamt Ingibjörgu.
„Félag sem skráð er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og er með heimilisfesti í Panama, hefur fjármagnað fjöldamörg verkefni í Bretlandi og á Íslandi eftir hrun. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, var skráður með prókúru í félaginu og tengist mörgum verkefnanna sem það hefur fjármagnað,“ segir í fréttinni.
Fram kemur í umfjöllun Kjarnans að rekstur íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct á Íslandi í eigu Guru Invest, sé í gegnum félagið Rhapsody Investments (Europe) sem skráð er í Lúxemborg. Þá hafi Guru Invest greitt inn á skuldir Fjárfestingafélagsins Gaums, móðurfélags Baugs, við slitastjórn Glitnis eftir hrun. Í frétt Stundarinnar um málið segir að auk þess hafi 200 milljónir króna verið greiddar í reiðufé.
Einnig kemur fram í fréttum Kjarnans að aflandsfélagið Jovita, í eigu Jóns Ásgeirs, hafi lánað íslensku félagi hans, Þú Blásól, jafnvirði hátt í hundrað milljóna króna nokkrum vikum fyrir hrun.
Árið 2007 stofnaði Jón Ásgeir Jovita Inc. Í lok ágúst 2008, nokkrum vikum fyrir bankahrun, lánaði Jovita Inc. íslenska félaginu Þú Blásól rúmlega 1,5 milljarða króna á núvirði, segir í frétt Kjarnans. Í lánasamningi kom fram að hann ætti að gilda frá 18. október 2007. „Engar skýringar voru gefnar á því af hverju Mossack Fonseca ætti að dagsetja hann næstum heilt ár aftur í tímann. Lánið var til þriggja ára og átti því að endurgreiðast í október 2010. Jón Ásgeir var einnig eigandi Þú Blásólar. Örfáum vikum eftir að lánið var veitt hrundi íslenska bankakerfið,“ segir í frétt Kjarnans.
Þú Blásól var úrskurðað gjaldþrota 20. maí í fyrra. Lýstar kröfur í búið námu rúmum 102 milljónum króna, en engar eignir fundust í því.
Jón Ásgeir var fyrir hrun aðaleigandi Gaums, sem var höfuð viðskiptaveldis Bónus-fjölskyldunnar, og stærsti eigandi verslunarrisans Baugs. Félag Ingibjargar, Eignarhaldsfélagið ISP, var einnig hluthafi í Baugi. Ingibjörg er í dag aðaleigandi fjölmiðlafyrirtækisins 365.
Í frétt Stundarinnar, sem einnig fjallar ítarlega um málið, eru rifjuð upp ummæli Jóns Ásgeirs í viðtali við Stöð 2 í september árið 2009: „Það er enginn fjársjóður á Tortóla eða einhvers staðar í suðurhöfum. Ég á fyrir Diet Coke, það er nóg.“
Kjarninn spurði Ingibjörgu hvaðan það fé, sem er vistað í Guru Invest í Panama hefði komið. Svar við þeirri fyrirspurn barst í gær, eftir að stutt frétt um Ingibjörgu hafði birst á DV. Sagðist hún í svari til Kjarans ekki tjá sig um einstök viðskipti en vísaði að öðru leyti til yfirlýsingar sinnar í frétt DV: „Ég hef verið búsett erlendis til fjölda ára. Þar af leiðandi er ég skattgreiðandi á Íslandi einungis að því leyti sem tekur til minna persónulegra eigna, fyrirtækja og tekna innanlands. Það hefur löngum verið ljóst að ég hef stundað viðskipti erlendis, og er það ekkert launungarmál, og í gegnum það tengst fjölda félaga erlendis, sem í einhverjum tilvikum kunna að flokkast sem aflandsfélög.“
Þá sagði hún einnig að ávallt hafi verið staðið skil á sköttum og gjöldum af þeim félögum sem henni tengjast.
Ítarlega er fjallað um viðskipti Ingibjargar og Jóns Ásgeirs í fréttum Kjarnans og Stundarinnar.