Laust eftir kl. 14 í dag barst lögreglu tilkynning um laumufarþega um borð í skipi Eimskipa við Sundahöfn sem var á leið til Ameríku. Sami maður hefur verið stöðvaður við þessa iðju tvisvar áður, síðast fyrir þremur dögum.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Þó nær vonlaust sé fyrir fólk að laumast þessa leið vestur um haf segir hann þetta þó valda fyrirtækinu vandræðum og þurfa finni betri lausn á málum þeirra sem það reyna.
„Það er eiginlega vonlaust að komast þessa leið. Eftirlitskerfið er það öflugt, með myndavélum sem nema bæði hreyfingu og hita. Svo er allt skoðað mjög rækilega áður en lagt er af stað og þessi maður fannst í slíkri ferð,“ segir Ólafur en hann segir þó gagnrýnivert að sömu einstaklingar komist upp með ítrekaðar tilraunir til sömu brota.
„Það er náttúrulega verið að brjótast inn á þetta svæði og við myndum vilja flokka þetta sem húsbrot. Við höfum talið að yfirvöld verði að taka á þessu máli með einhverjum hætti. Lögreglan hefur lýst því við okkur að þetta sé erfitt viðfangs og mönnunum er sleppt jafnóðum sem verður til þess að þeir fara bara aftur niður í Sundahöfn þegar næsta skip vestur kemur. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er flókið mál en það verður að leysa þetta einhvern veginn.“