Slitastjórn Glitnis leitaði m.a. að peningum fyrir sölu á snekkju í tilraun sinni til að hafa uppi á eignum sem hana grunaði að Jón Ásgeir Jóhannesson hefði komið undan í kjölfar efnahagshrunsins. Snekkjan hét OneOOne og var skráð á Cayman-eyjum.
Þetta er m.a. þess sem fram kemur í ítarlegri grein um viðskipti Jóns Ásgeirs Jóhannssonar og eiginkonu hans, Ingibjargar Pálmadóttur, í Kjarnanum í dag.
Í dag hafa Kjarninn og Stundin birt fréttir úr gögnum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca, svokölluðum Panama-skjölum. Þetta er fyrsta stóra umfjöllun íslenskra miðla upp úr skjölunum frá því þáttur Kastljóss og Reykjavik Media var sýndur sunnudaginn 3. apríl.
Í morgun hafa miðlarnir einbeitt sér í fréttum sínum að því sem fram kemur um Jón Ásgeir og Ingibjörgu í skjölunum.
Félög sem Jón Ásgeir stýrði fyrir hrunið árið 2008 áttu m.a. ráðandi hluti í FL Group og ásamt helstu viðskiptafélögum sínum hafði Jón Ásgeir „tögl og haldir í Glitni banka,“ segir í umfjöllun Kjarnans þar sem viðskipti Jóns Ásgeirs fyrir hrun eru m.a. rakin og einnig hver staða fyrirtækja og félaga hans varð í kjölfar þess.
„Þrátt fyrir mikla baráttu fyrir því að halda eignum sínum varð hvert félagið sem hann átti hlut í á fætur öðru gjaldþrota og kröfuhafaröðin sem á eftir honum gekk lengdist í sífellu,“ skrifar Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, í umfjöllun sinni um málið. „Samanlagðar skuldir félaganna sem Jón Ásgeir kom að námu á annað þúsund milljarða króna. Á móti voru einhverjar eignir, en í tilfellum margra þeirra voru þær ekki miklar. Til að mynda er gert ráð fyrir að sjö milljarðar króna fáist upp í alls 240 milljarða króna kröfur í þrotabú fjárfestingafélagsins Baugs Group, sem Jón Ásgeir stýrði.“
Þá er rifjað upp að kröfuhafar hafi reynt hvað þeir gátu til að komast yfir einhverjar eignir. „Slitastjórn Glitnis fékk meira að segja í gegn að allar þekktar eignir hans voru frystar með dómsúrskurði í Bretlandi árið 2010 og við þá málsmeðferð sór Jón Ásgeir að hann ætti ekkert meira en það sem þar var tilgreint. Slitastjórnin var ekki sannfærð og réð meðal annars rannsóknarfyrirtækið Kroll til að reyna að hafa upp á frekari eignum sem hún grunaði Jón Ásgeir um að hafa komið undan. Samkvæmt frystingarbeiðninni, sem Kjarninn hefur undir höndum, var slitastjórnin meðal annars að leita að afrakstri sölu snekkju, sem bar heitið OneOOne og var skráð til heimilis á Cayman-eyjum.“
Nafn snekkjunnar, OneOOne, vísar væntanlega til 101 en Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, átti hótel sem vísaði til póstnúmersins og sömuleiðis voru mörg félög í hennar eigu kennd við þetta númer.
Skiptastjórar í þrotabúum félaga sem tengjast hjónunum skoðað tilfærslur á eignum sem áttu sér stað innan þeirra rétt fyrir hrun og í kjölfra þess. Með litlum árangri. „Peningarnir virtust hafa farið til peningahimna,“ skrifar Þórður Snær, ritstjóri Kjarnans.
Svo virðist þó sem að einhverjir peningar hafi reyndar haft áframhaldandi viðveru í mannheimum, líkt og Þórður orðar það. „Í skjölum lögfræðistofunnar Mossack Fonseca frá Panama, sem láku út í fyrra og eru nú til umfjöllunar í fjölmiðlum víða um heim, er varpað ljósi á hvert hluti þeirra fór. Hann fór til Panama.“