BHM fagnar því að hvalaskoðunarfyrirtækið Elding hafi beðist afsökunar og ætli að fara yfir sína starfsemi. „Maður getur ekki annað en fagnað því ef fyrirtækið er búið að biðjast afsökunar og ætlar að fara yfir sína starfsemi svo rétt sé að öllu staðið og það finnst mér mjög virðingarvert,“ segir Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur BHM.
BHM gerði í vikunni athugasemdir við auglýsingu sem send var á opin póstlista vísindamanna sem stunda rannsóknir á sjávarspendýrum. Auglýst var eftir tveimur sérfræðingum í ólaunuð sjálfboðastörf við rannsóknir á hegðun hvala. Í auglýsingunni kom fram að auk vísindastarfa væri gert ráð fyrir að starfsmennirnir annist afgreiðslustörf og þrif um borð í hvalaskoðunarbátum fyrirtækisins. Þeir þurfi að vera reiðubúnir að vinna í allt að 14 klukkustundir á dag og fái aðeins fæði og húsnæði fyrir.
Í yfirlýsingu sem Elding sendi frá sér í gær segir að mannleg mistök hafi valdið því að í auglýsingunni hafi komið fram öll tilfallandi störf um borð í bátum fyrirtækisins, Fyrirtækið harmi misskilninginn sem risið hefur vegna málsins og biðst velvirðingar á mistökum sínum. Elding hafi enn fremur svarað fyrirspurnum sem BHM sendi fyrirtækinu um sl. helgi, án þess að fá nokkur viðbrögð.
„Við fengum viðbrögð frá Eldingu við bréfi BHM og þar voru ákveðna eftirá skýringar sem okkur fundust ekki vera haldbær rök,“ segir Erna. „Þar kom t.d. ekkert fram um að ef þau væru beðin um að sinna ákveðnum störfum umfram rannsóknarverkefnið þá fengju þau borgað fyrir það.“
Hún segir að ekki hafi farið milli mála í auglýsingunni sem BHM fékk senda að auglýst var eftir fólki til að sinna ákveðnum störfum undir yfirskini sjálfboðavinnu.
„Hins vegar getur maður ekki annað en fagnað því ef fyrirtækið er búið að biðjast afsökunar og ætlar að fara yfir sína starfsemi svo rétt sé að öllu staðið og það finnst mér mjög virðingarvert. Við viljum að fyrirtæki fari eftir lögum og kjarasamningum og ef það er einhver pottur brotinn eins og við vorum að benda á, þá er bara gott ef það er lagað.“
BHM hvetji fyrirtæki til að fara yfir sitt verklag svo þau uppfylli lög um kjarasamninga á Íslandi gagnvart íslensku og erlendu starfsfólki.
„Auðvitað vonumst við til að þeir borgi þeim starfsmönnum sem fara að starfa hjá þeim, það þýðir ekki að fá fólk til starfa undir yfirskini sjálfboðavinnu og láta það svo vinna,“ segir Erna. En í yfirlýsingu Eldingar segir að „rannsóknaaðilarnir teljast ekki til áhafnar né starfsmanna fyrirtækisins og teljast því til farþega um borð.“
Hún bendir á að þeir sem taka að sér sjálfboðastörf séu ekki með neina tryggingavernd, hvorki sjúkdóma né slysatryggingar. „Það er alvarlegt og nokkuð sem sjálfboðaliðar átta sig oft ekki á.“