Vísaði í frétt DV í svari til Kjarnans

Kjarninn fjallar ítarlega um viðskipti Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs …
Kjarninn fjallar ítarlega um viðskipti Ingibjargar Pálmadóttur og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í dag. Skjáskot/Kjarninn

Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi fjölmiðlafyrirtækisins 365, sendi Kjarnanum svar við fyrirspurn um aðkomu sína að félögum í Panama, klukkustund eftir að frétt um viðskipti hennar voru birt á DV í gærkvöldi.

Kjarninn og Stundin, í samstarfi við Reykjavík Media, hafa í morgun birt fréttir, sem m.a. eru byggðar á Panama-gögnunum, um að Ingibjörg og eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, hafi undanfarin ár fjármagnað fjárfestingar í Evrópu og á Íslandi með fé frá félagi skráðu í Panama.

Í frétt Kjarnans kemur fram að á þriðjudag hafi verið sendar fyrirspurnir til Jóns Ásgeirs og Ingibjargar um aðkomu þeirra að félaginu OneOOne Entertainment, sem breyttist síðar í Moon Capital S.A. og enn síðar í Guru Invest S.A. Á meðal þeirra svara sem óskað var eftir voru upplýsingar um hvaðan þeir fjármunir sem vistaðir eru í Guru Invest í Panama hafi komið, hverjar eignir félagsins eru og hvort að fé úr Guru Invest hafi runnið til félaga eða einstaklinga á Íslandi.

Þar var einnig spurt hvort eignir Guru Invest hafi verið á meðal þeirra eigna sem tilgreindar voru í umfangsmiklum skuldauppgjörum þeirra við kröfuhafa á Íslandi sem fram hafa farið á undanförnum árum og beðið um upplýsingar um hvar Guru Invest greiðir skatta og gjöld. Þá var einnig spurt af hverju félagið væri skráð með heimilisfesti á Panama. 

Ingibjörg svaraði fyrirspurninni á miðvikudag með eftirfarandi hætti: „Hef fengið fyrirspurnir í dag frá fleirum miðlum en þínum og hef svarað. Ég hef engu við það að bæta, þú getur pikkað upp það sem þegar er haft eftir mér. Að öðru leyti eins og ég hef áður sagt, þá tjái ég mig ekki um einstök viðskipti, þar er trúnaður milli viðskiptafélaga.“

Rúmum klukkutíma áður en svarið barst Kjarnanum birtist frétt um Ingibjörgu á DV undir fyrirsögninni: „Fjölmiðlafyrirtækið 365 ekki með tengsl við aflandsfélög.“ 

Þar sagði Ingibjörg: „„Ég hef verið búsett erlendis til fjölda ára. Þar af leiðandi er ég skattgreiðandi á Íslandi einungis að því leyti sem tekur til minna persónulegra eigna, fyrirtækja og tekna innanlands. Það hefur löngum verið ljóst að ég hef stundað viðskipti erlendis, og er það ekkert launungarmál, og í gegnum það tengst fjölda félaga erlendis, sem í einhverjum tilvikum kunna að flokkast sem aflandsfélög.“ Þá sagði hún einnig að ávallt hafi verið staðið skil á sköttum og gjöldum af þeim félögum sem henni tengjast. „Varðandi eignarhald mitt í 365 miðlum, þá er það m.a. í gegnum eignarhaldsfélagið Moon Capital í Luxemborg og einnig í gegnum íslenskt félag.“

Í frétt DV er tekið fram að fjölmiðillinn hafi sent fyrirspurnir á fólk úr atvinnulífinu um tengsl þeirra við aflandsfélög í tilefni af birtingu Panama-skjalanna.

Ítarlegar fréttir um málið má lesa á Kjarnanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert