Mjög alvarlegt ástand er nú í rekstri kirkjugarða landsins. Stærsti kirkjugarðurinn, Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP), sem þjóna rúmlega 50% af þjóðinni, hafa verið reknir með halla árin 2011, 2012, 2014 og 2015. Þetta kemur fram í Bautasteini, fréttabréfi Kirkjugarðasambands Íslands.
Árið 2013 var réttum megin við strikið vegna þess að endurnýjun véla var í lágmarki, viðhald fasteigna nánast ekkert og stöðugildi sumarstarfsmanna skorin niður, segir í frétt sambandsins.
Niðurstaða rekstrarreiknings 2015 sýnir að gjöld KGRP eru um 30 m.kr. umfram tekjur (6% af veltu). Kirkjugarðar á landsbyggðinni þurfa, eins og KGRP, að taka af umhirðupeningum sínum til að greiða verktökum fyrir grafartöku, þó víðast sé verið að greiða þeim langt undir taxta fyrir þau störf.
„Ljóst er að ekki verður lengur hægt að halda áfram rekstri garðanna við þessar aðstæður. Ef ríkissjóður eykur ekki framlagið til kirkjugarða (umfram verðlag) á næstu árum verða alþingismenn að breyta lögum um kirkjugarða og fækka þeim skyldum sem þar eru nefndar. Lagafrumvarp, sem koma á rekstrarumhverfi og starfsemi kirkjugarða inn í 21. öldina, hefur margsinnis verið stöðvað vegna geðþóttaákvörðunar embættismanna sem telja að þessi samfélagsþjónusta þurfi ekki að fylgja breytingum í þjóðfélaginu eins og allar aðrar. Skeytingarleysi ráðamanna varðandi málefni kirkjugarða er til háborinnar skammar,“ segir í fréttinni.