Tökum á Fast 8 lokið á Íslandi

Þyrlur á vegum Fast 8 sveima yfir Akranesi
Þyrlur á vegum Fast 8 sveima yfir Akranesi Ljósmynd/Finnur Andrésson

Tökum á hasarmyndinni  Fast and the Furious 8 lauk á Akranesi á miðvikudag og eru bandarísku kvikmyndagerðarmennirnir sem að þeim stóðu farnir af landi brott.

Tökurnar stóðu yfir í tæpa viku en undirbúningur hafði staðið yfir í margar vikur á undan. Á lokatökudeginum voru sprengingar og læti sem ómuðu um allan Skagann. „Við vorum búin að vara íbúana við því og þetta gekk allt saman vel. Fólk áttaði sig alveg á því hvað þetta var,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi. „Fólk sýndi þessu mikinn skilning og áhuga.“

Frétt mbl.is: Gerir mikið fyrir bæjarfélagið 

Gagnkvæm ánægja 

Hún segir að mjög mikil ánægja hafi verið með framgöngu kvikmyndagerðarmannanna. „Ég veit að það er gagnkvæmt. Þeir voru líka ánægðir með viðtökurnar sem þeir fengu í bænum, þannig að þetta var hið besta mál.“

Ísland mun sjást í 10 til 15 mínútur í kvikmyndinni og því fá bæði Akranes og Mývatn, þar sem tökurnar fóru einnig fram, góða kynningu á alþjóðavísu. Regína segir að ekki hafi verið farið yfir það hversu mikils virði tökurnar hafa verið í peningum fyrir bæjarfélagið en telur að hugsanlega verði það gert.

Hún hlakkar til að sjá útkomuna í Bíóhöllinni á Akranesi. „Við förum að sjálfsögðu öll í bíó í apríl á næsta ári.“

Tökum á Mývatni lauk í síðustu viku

Tökum á Fast & the Furious 8 lauk á Mývatni í síðustu viku en tökuliðið mætti á svæðið um tveimur mánuðum fyrr til undirbúnings.

Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðarhrepps, segist ekki vita betur en að hlutirnir hafi gengið vel fyrir sig, þó að eitthvað hafi farið miður, eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum.

„Það er búið að taka allt niður og búið að fjarlægja allar græjurnar sem þeir voru með. Ég veit ekki annað en að þetta sé í „orden"," segir hann. 

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness.
Hluti af bílunum sem voru notaðir við tökurnar á myndinni.
Hluti af bílunum sem voru notaðir við tökurnar á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg
Af tökustað Fast and the Furious 8 við Mývatn.
Af tökustað Fast and the Furious 8 við Mývatn. mbl.is/Birkir Fanndal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert