„Auðlegðarskatturinn var sérstaklega fjandsamlegur ellilífeyrisþegum og ósanngjarnt að þeir urðu að ganga á eignir sínar og ævisparnað til að mæta skattkröfunni,“ segir Jón Þór Ólason hrl., en hann var lögmaður dánarbús eldri konu sem nýlega tapaði dómsmáli fyrir ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þar var krafist niðurfellingar á viðbótarauðlegðarskatti sem lagður var á konuna vegna tekjuáranna 2010-2012. Gerð var krafa um endurgreiðslu á nærri 50 milljóna króna skattgreiðslum.
Héraðsdómur féllst ekki á kröfuna, dæmdi ríkinu í vil og krafði dánarbúið um 600 þúsund króna málskostnað. Konan lést á síðasta ári, 96 ára að aldri, en hún var níræð þegar Alþingi samþykkti lög um auðlegðarskattinn árið 2009.
Eitt álagningarárið, 2011, voru skattgreiðslur konunnar hærri en sem nam fjármagnstekjum hennar og lífeyri, eða 21,3 milljónir í skatta á meðan tekjurnar námu 20,6 milljónum. Hin gjaldárin voru skattgreiðslurnar um 80% og 90% af tekjum konunnar.
Jón Þór útilokar ekki að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. 26