Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG gagnrýndi harðlega málaskrá ríkisstjórnarinnar í tengslum við fyrirhugaðar kosningar í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Hringbraut í morgun. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagðist bera fullt traust til núverandi forystu Sjálfstæðisflokks.
„Við erum alveg þokkalega undirbúin fyrir kosningar,“ sagði Ragnheiður, „og þetta ágæta fólk sem er í forystu hefur eftir því sem ég best veit fyllsta traust Sjálfstæðismanna. Mér finnst Bjarni [Benediktsson] hafa gert ágætla grein fyrir því hvernig hans nafn kemur fyrir í Panamaskjölunum og mér finnst það vel gert hjá honum og Ólöf hefur líka gert mjög vel grein fyrir sínu.“ Ragnheiður segir miðstjórn flokksins munu taka ákvörðun um það hvort gripið verði til einhverra ráðstafana fyrir kosningar en hún mun funda á næstunni.
Hún sagðist þó ekki viss um það hvort hún yrði sjálf í framboði í næstu kosningum. Hún játaði því að hún hefði verið vonsvikin með að fá ekki embætti ráðherra á yfirstandandi kjörtímabili en sagði það þó ekki ráða ákvörðun hennar. „Ég er ekki í neinni fýlu,“ svaraði hún Sigurjóni stjórnanda þáttarins um það.
Svandís Svavarsdóttir gagnrýndi í þættinum framgöngu ríkisstjórnarinnar í tímasetningu kjördags í haust, sem enn sé ekki komin á hreint.
„Maður er náttúrulega hissa, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ekki sé hægt að setja einfaldlega niður þennan dag og ég skil það ekki að það sé búið að halda tvo fundi í stjórnarráðinu með stjórnarandstöðunni og afraksturinn skuli enn vera sá að það sé ennþá loðið og lævi blandið hvenær verður kosið,“ sagði Svandís. „Mér finnst þetta dónalegt gagnvart þjóðinni,“ bætti hún svo við.
Þá gagnrýndi hún hina 76 mála þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram nýverið. „Þetta er eins og einn þingvetur eða svo. Þarna eru furðumál frá Sigmundi Davíð um að hann sjálfur friði hús. Ætlar Sigurður Ingi að fara að friða hús? Ég veit það ekki en það mál er t.d. þarna ennþá. Svo eru þarna mál sem við höfum ekki séð eins og nýtt mál um almannatryggingar.“
Hún sagðist telja ríkisstjórnina ætla með þessum töfum á tilkynningu kjördags að vinna sér inn tíma til þess að ræða sín á milli mál sem ekki sé einhugur um innan flokkanna. Eins gagnrýndi hún í því samhengi málflutning ríkisstjórnarinnar um skilyrðingu kjördags við framgang þingmála.
„Er það eitt af þessum mikilvægu og stóru málum að stofna nýja skógræktarstofnun? Fyrst var talað bara um útboð á aflandskrónum og maður tengir við að það sé akútmál og við þurfum að stilla saman strengi þverpólitískt til þess að standa á bak við það. Svo þegar maður er kominn með 76 mál á lista þá er maður hættur að skilja þær röksemdir.“
Ragnheiður sagði einhug í nefndarstarfi um að hleypa í forgang fyrirhugaðar fjárfestingar hins opinbera í félagsíbúðum en þó væri um þær ýmsum spurningum ósvarað. Um gríðarlegar fjárfestingar væri að ræða sem sveitarfélögin væru mörg hver illa í stakk búin til þess að fjármagna. Allt að 60-80 milljarða kosti að byggja þær 2.300 íbúðir sem til umræðu séu.
Frumvarp um húsaleigubætur sagði Ragnheiður þó ganga í berhöggi við séreignastefnu Sjálfstæðisflokksins, sem hún hefur mælt fyrir. „Ég geri mér grein fyrir því að það eru breyttir tímar í samfélaginu og það er til fólk sem vill ekki eignast eigin húsnæði og vill leigja til langframa. En mér finnst ekki að sá leigumarkaður eigi að byggjast upp á skatti almennings.“