Dónaskapur gagnvart þjóðinni

Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG
Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG mbl.is/Eggert

Svandís Svavars­dótt­ir þingmaður VG gagn­rýndi harðlega mála­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar í tengsl­um við fyr­ir­hugaðar kosn­ing­ar í þætti Sig­ur­jóns M. Eg­ils­son­ar á Hring­braut í morg­un. Ragn­heiður Rík­h­arðsdótt­ir sagðist bera fullt traust til nú­ver­andi for­ystu Sjálf­stæðis­flokks.

„Við erum al­veg þokka­lega und­ir­bú­in fyr­ir kosn­ing­ar,“ sagði Ragn­heiður, „og þetta ágæta fólk sem er í for­ystu hef­ur eft­ir því sem ég best veit fyllsta traust Sjálf­stæðismanna. Mér finnst Bjarni [Bene­dikts­son] hafa gert ágætla grein fyr­ir því hvernig hans nafn kem­ur fyr­ir í Pana­maskjöl­un­um og mér finnst það vel gert hjá hon­um og Ólöf hef­ur líka gert mjög vel grein fyr­ir sínu.“ Ragn­heiður seg­ir miðstjórn flokks­ins munu taka ákvörðun um það hvort gripið verði til ein­hverra ráðstaf­ana fyr­ir kosn­ing­ar en hún mun funda á næst­unni.

Hún sagðist þó ekki viss um það hvort hún yrði sjálf í fram­boði í næstu kosn­ing­um. Hún játaði því að hún hefði verið von­svik­in með að fá ekki embætti ráðherra á yf­ir­stand­andi kjör­tíma­bili en sagði það þó ekki ráða ákvörðun henn­ar. „Ég er ekki í neinni fýlu,“ svaraði hún Sig­ur­jóni stjórn­anda þátt­ar­ins um það.

Óvís kjör­dag­ur dóna­skap­ur gagn­vart þjóðinni

Svandís Svavars­dótt­ir gagn­rýndi í þætt­in­um fram­göngu rík­is­stjórn­ar­inn­ar í tíma­setn­ingu kjör­dags í haust, sem enn sé ekki kom­in á hreint.

„Maður er nátt­úru­lega hissa, svo ekki sé fast­ar að orði kveðið, að ekki sé hægt að setja ein­fald­lega niður þenn­an dag og ég skil það ekki að það sé búið að halda tvo fundi í stjórn­ar­ráðinu með stjórn­ar­and­stöðunni og afrakst­ur­inn skuli enn vera sá að það sé ennþá loðið og lævi blandið hvenær verður kosið,“ sagði Svandís. „Mér finnst þetta dóna­legt gagn­vart þjóðinni,“ bætti hún svo við.

Þá gagn­rýndi hún hina 76 mála þing­mála­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem lögð var fram ný­verið. „Þetta er eins og einn þing­vet­ur eða svo. Þarna eru furðumál frá Sig­mundi Davíð um að hann sjálf­ur friði hús. Ætlar Sig­urður Ingi að fara að friða hús? Ég veit það ekki en það mál er t.d. þarna ennþá. Svo eru þarna mál sem við höf­um ekki séð eins og nýtt mál um al­manna­trygg­ing­ar.“

Hún sagðist telja rík­is­stjórn­ina ætla með þess­um töf­um á til­kynn­ingu kjör­dags að vinna sér inn tíma til þess að ræða sín á milli mál sem ekki sé ein­hug­ur um inn­an flokk­anna. Eins gagn­rýndi hún í því sam­hengi mál­flutn­ing rík­is­stjórn­ar­inn­ar um skil­yrðingu kjör­dags við fram­gang þing­mála.

„Er það eitt af þess­um mik­il­vægu og stóru mál­um að stofna nýja skóg­rækt­ar­stofn­un? Fyrst var talað bara um útboð á af­l­andskrón­um og maður teng­ir við að það sé akút­mál og við þurf­um að stilla sam­an strengi þver­póli­tískt til þess að standa á bak við það. Svo þegar maður er kom­inn með 76 mál á lista þá er maður hætt­ur að skilja þær rök­semd­ir.“

Enn deilt um hús­næðismál­in

Ragn­heiður sagði ein­hug í nefnd­ar­starfi um að hleypa í for­gang fyr­ir­hugaðar fjár­fest­ing­ar hins op­in­bera í fé­lags­í­búðum en þó væri um þær ýms­um spurn­ing­um ósvarað. Um gríðarleg­ar fjár­fest­ing­ar væri að ræða sem sveit­ar­fé­lög­in væru mörg hver illa í stakk búin til þess að fjár­magna. Allt að 60-80 millj­arða kosti að byggja þær 2.300 íbúðir sem til umræðu séu.

Frum­varp um húsa­leigu­bæt­ur sagði Ragn­heiður þó ganga í ber­höggi við sér­eigna­stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins, sem hún hef­ur mælt fyr­ir. „Ég geri mér grein fyr­ir því að það eru breytt­ir tím­ar í sam­fé­lag­inu og það er til fólk sem vill ekki eign­ast eig­in hús­næði og vill leigja til lang­frama. En mér finnst ekki að sá leigu­markaður eigi að byggj­ast upp á skatti al­menn­ings.“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Ragn­heiður Rík­h­arðsdótt­ir þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins mbl.is/Ó​mar Óskars­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert