Bæring dregur framboð sitt til baka

Bæring Ólafsson hefur hætt við framboð sitt.
Bæring Ólafsson hefur hætt við framboð sitt.

Bæring Ólafsson sem hafði áður gefið út að hann hygði á forsetaframboð hefur tilkynnt að hann dragi framboð sitt til baka. Segir hann ákvörðunina tekna í ljósi atburða liðinna daga og tilkynningu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að hann ætli að bjóða sig fram að nýju.

Bæring hafði áður sagt í samtali við mbl.is að hann væri ósáttur við ákvörðun Ólafs og að hún kæmi honum á óvart. Þá hafði áður komið fram hjá Bæring að hann hafi ætlað að bjóða sig fram fyrir kosningarnar 2012 en hætt við þar sem hann vildi ekki bjóða sig fram gegn sitjandi forseta.

Tilkynning sem fjölmiðlum barst frá tengiliði Bærings má lesa í heild hér að neðan:

Í ljósi atburða liðinna daga og tilkynningu forseta vors, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, um að bjóða sig fram til endurskjörs, tilkynni ég hér með að ég dreg framboð mitt til baka.

Þetta er í samræmi við það sem ég hef áður sagt, að ég myndi ekki bjóða mig fram á móti sitjandi forseta.

Ég óska háttvirtum forseta góðs gengis í endurkjörinu, öðrum frambjóðendum allra heilla og óska þjóðinni alls hins besta í framtíðinni.

Að lokum vil ég þakka öllu stuðningsfólki mínu fyrir að hafa trú á mér.

Bæring Ólafsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert