Komum á bráðadeild hefur fjölgað, meðal legutími sjúklinga hefur lengst og skurðaðgerðum fjölgaði lítillega milli ára þrátt fyrir verkföll síðasta árs, að því er fram kemur í ársskýrslu Landspítalans. Árið 2014 voru komur á bráðadeild 98.343 en í fyrra voru þær 101.094, en alls leituðu 106.861 einstaklingar til Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH) það árið sem var 0,8% færri en árið á undan.
Meðallegutími sjúklinga hefur þá lengst úr 7 dögum að meðaltali 2011, upp í 7,5 daga 2014 og 7,9 daga í fyrra, en hlutfallsleg breyting á milli 2014 og 2015 nemur 4,7%.
Árið 2011 voru 14.383 skurðaðgerðir framkvæmdar á Landspítalanum án inndælingar lyfs í auga, en í fyrra voru þær 13.006, sem er 0,4% fleiri en árið á undan. Að sögn Maríu Heimisdóttur framkvæmdastjóra Fjármálasviðs, hefði aðgerðunum fjölgað enn frekar ef ekki hefði komið til verkfalla. „Eftir áralangan niðurskurð í kjölfar kreppunnar komu kjaradeilur og verkföll og höfðu verulega áhrif á alla starfsemi. Verkföllin leiddu til aukningar biðlista sem nú er verið að vinna á að hluta. Ef tölurnar eru hins vegar bornar saman við árið á undan þá má sjá að við náðum að framkvæma alveg ótrúlega mikið af aðgerðum þrátt fyrir verkföllin,“ segir María.
Umtalsverð fjölgun hefur þá orðið á þeim skráðum atvikum sjúklinga sem snúa að öryggismálum LSH og hefur þessum atvikum fjölgað um 23% milli áranna 2014 og 2015. Þannig voru 3.640 atvik skráð í fyrra á móti 2.960 atvik árið áður. Á sama tíma dró hins vegar úr skráðum atvikum starfsmanna og fækkaði þeim um 3,3%.
Ólafur Baldursson framkvæmdastjóri lækninga segir ástæðu aukningarinnar skrifast á breyttar áherslur í öryggismálum. „Samkvæmt þeim sjúkrahúsum sem við berum okkur saman við þá er við því að búast að skráningum fjölgi fyrstu árin. Þetta er vitundarvakning og fólk er ekki jafn hrætt við að skrá og áður og við fögnum því.“ Spurður hvers vegna dregið hafi úr starfsmannaskráningum á tímabilinu segir hann ómögulegt að segja. „Þarna geta verið sveiflur og við vitum til dæmis ekkert hvaða áhrif það kann að hafa haft að starfsmaður var ákærður, það hefur klárlega áhrif en við vitum ekki hve mikil.“
Aðal atriðið sé hins vegar að opna á skráninguna og gera hana aðgengilega með því að hafa hana einfalda. „Og okkur finnst það vera að takast. Við viljum að öryggismenningin sé jafn opin og hún getur verið af persónulegum ástæðum og svo viljum við leggja gríðarlega áherslu á úrvinnsluna og úrbætur þar.“ Áður voru upplýsingarnar verið skráðar, en síðan lítið gert við þær. „Við höfum mælt úrvinnsluprósentuna hjá okkur og hún hefur hækkað verulega og það er algjört lykilatriði.“
Starfsánægja hefur einnig aukist á ný á Landspítalanum að því er fram kemur í ársskýrslunni. Mældist starfsánægja 4 á skala þar sem 5 er hæsta gildið árið 2011 og fór svo dvínandi árin 2013-2014 er hún mældist 3,7 og 3,9 en í fyrra var hún komin upp í 4,1.
Rekstrarkostnaður LSH hefur aukist á tímabilinu umfram hækkun launa, en að því er fram kom á ársfundinum þá skekkja verkföll síðasta árs verulega þessa mynd. Í fyrra nam rekstrarkostnaður 52,281 milljónum króna en launakostnaðurinn 38,645 milljónum og hækkuðu launagjöld sem nam 3.9% milli áranna 2014 og 2015 og hefði hækkunin verið mun meiri, að sögn Maríu ef ekki hefði komið til verkfallanna.