Eignarhaldafélag Vilhjálms Þorsteinssonar, fjárfestis og fyrrverandi gjaldkera Samfylkingarinnar, Meson Holding átti dótturfélagið M-Trade á Bresku jómfrúareyjum fram til ársins 2008. Þetta staðfestir Vilhjálmur á vefsíðu sinni í kvöld í kjölfar Kastljóssþáttar Ríkisútvarpsins þar sem fjallað var um málið. Meson Holding er skráð í Lúxemburg en Vilhjálmur segir þarlend stjórnvöld hafa haft fulla vitneskju um dótturfélagið á Bresku jómfrúareyjum.
Vilhjálmur segir Meson Holding hafa verið í eignastýringu hjá Kaupþingi Lúxemburg á árinum 2000-2008 eða þar til bankinn hafi farið í greiðslustöðvun. Vegna regluverks í Lúxemburg hafi bankar stofnað dótturfélög á Bresku jómfrúareyjum ef viðskiptavinur hafi viljað fjárfesta í öðrum en hlutabréfum, skuldabréfum og festeignum. Tilgangurinn hafi hvorki verið að lækka skattgreiðslur félagsinsins í Lúxemburg eða hans eigin á Íslandi.
Frétt mbl.is: Vilhjálmur með félag á Jómfrúareyjum
„Það gilti um mitt félag og það átti því dótturfélag á Bresku jómfrúreyjum í umsjá bankans til 2008 þegar Kaupþing Lúxemborg fór í greiðslustöðvun. Eftir það flutti félagið eignastýringu sína og allar eignir annað og dótturfélagið var þar með úr sögunni. Í millibilsástandi 2009-2011 var félagið með hluta eigna sinna í eignastýringu hjá alþjóðlegum banka sem stofnaði af sömu ástæðum dótturfélag á Guernsey. Það var lagt niður 2011 og eftir það hefur eignarhaldsfélagið aðeins átt dótturfélög innan EES eins og fram kemur í reikningum þess.“
Meson Holding hafi greitt skatta af söluhagnaði hlutabréfa á Íslandi sem það hefði ekki greitt ef það væri íslenskt félag. Pistlinum lýkur Vilhjálmur á eftirfarandi orðum þar sem hann vísar til pistils sem hann ritaði 30. mars en þar var ekki minnst á félagið á Bresku jómfrúareyjum né að hann hefði átt félög Guernsey og Kýpur. Skömmu síðar sagði hann af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar á þeim forsendum að hann vildi ekki draga athyglina frá ráðherrum í ríkisstjórninni sem kæmu við sögu í Panama-skjölunum.
„Ég skrifaði pistil á bloggið mitt á eyjan.is í flýti á síðkvöldi á hótelherbergi erlendis (á iPad!) í þeim tilgangi að tilkynna um afsögn mína sem gjaldkeri, þannig að nafn mitt og flokksins þvældist sem minnst fyrir þeirri mikilvægu umræðu sem þá var framundan. Það hefði óneitanlega verið réttara og skynsamlegra af mér að flýta mér hægar, bíða uns ég hafði aðgang að fullnægjandi gögnum (allt frá árinu 2000) og fara að því loknu yfir alla forsögu mála í einum og þá ítarlegri pistli.“
Í samtali við Kastljós sagðist Vilhjálmur ekki hafa séð ástæðu til að nefna félagið á Bresku jómfrúareyjum sérstaklega í pistlinum 30. mars enda væri það hætt starfsemi.