Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fyrrum gjaldkeri Samfylkingarinnar átti aflandsfélag á Bresku Jómfrúareyjunum. Félagið kemur fyrir í Panamas-kjölunum. Frá þessu greinir Kjarninn.
Í umfjöllun miðilsins kemur fram að Vilhjálmur sé annar stærsti hluthafi Kjarnans eigi 15,98 prósent hlut í fyrirtækinu, og hafi setið í stjórn hans. Ákveðið hafi verið í morgun að hann skuli víkja sæti en hann hafi upplýst stjórn Kjarnans um málið um liðna helgi vegna yfirvofandi umfjöllunar Kastljóss um málið.
Umrætt félag hét M-Trade og var stofnað árið 2001 en afskráð formlega árið 2012. Nafn fyrirtækisins kemur fyrir í skjölum tengdum Mossack Fonseca en það fjárfesti m.a. í afleiðuviðskiptum og var í eignastýringu hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Þar að auki átti Vilhjálmur annað dótturfélag á árunum 2009 til 2011 sem skráð var á Guernsey og hafði sama tilgang og M-Trade hafði áður.
Þann 31. mars tilkynnti Vilhjálmur í pistli á bloggsvæði Eyjunnar að hann ætti eignarhaldsfélag í Lúxemborg, Meson Holding. Sagði hann ástæðu staðsetningar félagsins aftur á móti ekki tengd skattamálum, heldur „fyrst og fremst vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis“. Sagði hann að þrátt fyrir að starfsemi félagsins væri lögleg myndi hann segja af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar þar sem „flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands“ væri ekki til þess fallið að „fókusa“ umræðuna um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skipti: ríkisstjórnina og Stjórnarmeirihlutann. Vilhjálmur minntist ekki á M-Trade í pistlinum.
Frétt mbl.is: Hættir sem gjaldkeri Samfylkingarinnar
Í umfjöllun Kjarnans kemur fram að nafn Vilhjálms sé ekki meðal skjalanna frá Mossack Fonseca þó nafn M-Trade sé það. Vilhjálmur segi sjálfur að Meson Holding hafi flutt allar eignir sínar úr eignastýringu Kaupþings eftir fall bankans árið 2008.
Þar með hafi félagið verið úr sögunni hvað hann varðar.
Árið 2009 hafi Meson Holding hafið viðskipti við alþjóðlegan banka sem síðan hafi stofnað dótturfélagið á Guernsey, Jacinth, sem starfað hafi til júní 2011. Síðan þá segist Vilhjálmur ekki hafa átt nein félög á aflandssvæðum.