Lögregluskólinn verði lagður niður

Löggumyndir
Löggumyndir

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag frumvarp Ólafar Nordal innanríkisráðherra til breytinga á lögreglulögum en samkvæmt þeim verður nám lögreglumanna háskólanám og Lögregluskóli ríkisins verður lagður niður. Frumvarpið, sem byggir á vinnu tveggja starfshópa, fer nú til umfjöllunar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna. Ennfremur er gert ráð fyrir því að sérstök eining innan lögreglunnar sjái um tengingu fræðilegs og verklegs hluta námsins og sinni rannsóknar- og fræðslustarfi innan lögreglunnar.

Helstu breytingarnar sem lagðar eru til eru þær að menntun lögreglumanna verði færð á háskólastig til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum, skilyrði til starfs lögreglumanns verði diplómapróf í lögreglufræðum sem jafngildi að minnsta kosti 120 stöðluðum námseiningum á háskólastigi, sett verði á stofn mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu innan embættis ríkislögreglustjóra og að Lögregluskóli ríkisins verði lagður niður. Hlutverk setursins verði að sjá um starfsnám lögreglunema og fræðslustarf.

Gert er ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins að núverandi nemendur í Lögregluskóla ríkisins eigi rétt til 30. september á að ljúka námi sínu og að skólinn skuli útskrifa í ágúst 2016 þá nemendur sem hófu skólagöngu haustið 2015. Lögregluskóli ríkisins teljist formlega lagður niður frá og með 30. september verði frumvarpið að lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert