Búið var að koma máli sem Vinnueftirlit ríkisins kærði til lögreglunnar í Vestmannaeyjum og varðaði meðal annars vinnuslys þar sem barn missti framan af fingri í fiskvinnslustöð fyrir í skjalageymslu þrátt fyrir að málinu væri ekki lokið. Málið var skráð á starfsmann embættisins sem hætti störfum árið 2012.
Þetta kom í ljós við yfirferð opinna mála í kerfi lögreglunnar sem hófst eftir að nýr lögreglustjóri tók við í byrjun árs 2015, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum.
Farið var yfir gögn málsins af fulltrúa lögreglustjórans í Vestmannaeyjum og því lokið. Því barst fiskvinnslufyrirtækinu sem kært var ekki tilkynning um að málinu væri lokið fyrr en í byrjun mars á þessu ári, tæpum þremur árum eftir að málið fyrndist.
Um fleiri mál var að ræða en kæru Vinnueftirlitsins. Í langflestum tilfellum var búið var að ljúka málum með réttum hætti en einungis eftir að ljúka skráningu í málaskrá lögreglu. Einhver mál voru tiltölulega ný og var þeim lokið með viðeigandi hætti.
Frétt mbl.is: Barn missti framan af fingri
Fyrningarfrestur málsins hófst 24. júlí 2011, sama dag og slysið varð. Í bréfi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum sem sent var til fyrirtækisins kemur fram að ljóst sé af gögnum málsins að meira en tvo ár eru liðin síðan síðasta rannsóknaraðgerð fór fram en síðustu skýrslur voru teknar 10. desember 2012. „Að mati lögreglustjórans í Vestmannaeyjum eru ætluð brot því fyrnd,“ segir í bréfinu.
Vinnueftirlitið kærði fiskvinnslufyrirtækið Godthaab í Nöf ehf. til lögreglunnar í Vestmannaeyjum 28. febrúar 2012 fyrir brot á vinnulöggjöf með því að hafa falið barni sem þá var fjórtán ára að vinna við hættulega vél sem er með öllu óheimilt að láta börn vinna við, að hafa látið barnið vinna á tólf tíma vöktum og hafa látið það vinna næturvinnu sem fyrirtækinu var með öllu óheimilt að fela barninu að vinna. Barnið slasaðist alvarlega á hendi 24. júlí 2011 við vinnu við marningsvél.
Greint var frá málinu í frétt á vef ASÍ og í tilkynningu sem send var til fjölmiðla. Þar sagði meðal annars: „Brot á vinnuverndarlöggjöfinni virðast hafa lítið vægi hjá lögregluembættum landsins, jafnvel þó um vítaverð brot gegn barni sé að ræða.“
Vinnueftirlitið kærir tvö til þrjú mál til lögreglunnar ár hvert, þ.e. alvarleg mál sem talin eru refsiverð. Björn Þ. Rögnvaldsson, lögfræðingur Vinnueftirlitsins, segir í samtali við mbl.is að of algengt sé að þessi mál lengi neðarlega í goggunarröðinni hjá lögreglunni. Hann segir skýringuna líklega vera að brot á vinnuverndarlöggjöf varði eingöngu sektum og því fyrnist brotin á tveimur árum.
„Það er nauðsynlegt að herða refsirammann, að það varði sektum og/eða fangelsi í einhvern tiltekinn tíma. Það hefði mikið meiri varnaráhrif og myndi það koma í veg fyrir að svona mál myndu fyrnast á eingöngu tveimur árum. Oft eru brot á vinnuverndarlögunum eins og við segjum, ekki mjög alvarleg.
Við erum alltaf að gefa fyrirmæli þar sem við erum að segja fólki að breyta rétt þegar lögbrot verður. Hins vegar koma fyrir mjög alvarleg brot og oft verða slys í kjölfar þess og þá er þetta í raunverulega eini viðlagagrunnurinn sem maður hefur, sektir, sem er mjög bagalegt,“ segir Björn.