„Markmiðið að afnema fáránleg bönn“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata er fyrsti flutningsmaður frumvarps til …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um brottfall laga um helgidagafrið. mbl.is/Styrmir Kári

Frumvarp til laga um brottfall laga um helgidagafrið var meðal dagskrárliða á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun. Frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi af Pír­öt­um og Bjartri framtíð. Meðal gesta á fundinum voru ýmsir fulltrúar þeirra sem sent hafa inn umsögn um frumvarpið, þeirra á meðal eru stjórn Prestafélags Íslands, Viðskiptaráð Íslands, Alþýðusamband Íslands og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

Sjá frétt mbl.is: Presta vilja ekki helgidagafrið

„Það voru allir jákvæðir í garð frumvarpsins sem mættu á fundinn í dag,“ segir Helgi Hrafn Gunn­ars­son, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is, en hann er jafnframt  fyrsti flutn­ings­maður frum­varps­ins.

„Ég fæ ekki betur séð en að það sé mikill samhugur um að gera þetta. Það er ein athugasemd frá Prestafélaginu sem kemur fram í umsögn þeirra um að þeir vilja halda orðinu helgidagur, án þess að það heiti endilega helgidagur Þjóðkirkjunnar.“  

Brottfall laganna koma ekki niður á réttindum fólks

Helgi Hrafn segir að upp hafi komið sú umræða um hvort breyting á lögunum kæmi niður á réttindum fólks á vinnumarkaði, en svo segir hann ekki vera.

„Það er hlutverk kjarasamninga og laga um 40 stunda vinnuviku að tryggja réttindi fólks í vinnu, það er ekki hlutverk laganna um helgidagafrið. Á fundinum í dag spurði ég viðstadda að því hvort að það væri hægt að skoða það betur hvort minnst væri á helgidaga í kjarasamningnum og fékk þau svör að Félagsdómur myndi varla álykta sem svo að ákvæði kjarasamninga myndi breytast við brottfall þessara laga.“

Helgi Hrafn segir að í fyrstu hafi verið erfitt að leita meðflutningsmanna vegna þess að við fyrstu sýn fái fólk það á tilfinninguna að verið sé að hræra í réttindum vinnufólks. „Það er ekki markmiðið, heldur að afnema þessi fáránlegu bönn.“

Markmið núgildandi laga um helgidagafrið er að vernda helgihald og tryggja frið, næði og hvíld og takmarka afþreyingu fólks á helgidögum þjóðkirkjunnar. Samkvæmt nýja frumvarpinu sem leggur til brottfall þessara laga sjá flutningsmenn ekki ástæðu til að takmarka frelsi fólks með lögum þannig að það varði sektum að standa að til dæmis bingó, happdrætti, dansleikjum eða öðrum samkomum á helgidögum þjóðkirkjunnar.

Helgi Hrafn er bjartsýnn á að frumvarpið gangi í gegn á yfirstandandi þingi. „Ég er fullkomlega sannfærður að ef frumvarpið fær fulla þinglega meðferð verði það samþykkt.“

Á fundinum var einnig rætt um þann möguleika að færa til frídaga þannig að þeir henti betur. „Það tilheyrir hins vegar ekki þessu máli en við ræddum um hvort það tilheyrir löggjafanum eða þeim sem sjá um kjarasamninga að díla um það. Þetta er umræða sem kemur upp reglulega og eiginlega undantekningalaust þegar frídagar eru ræddir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka