Íslenskir eigendur aflandsfélaga hafa margir komið af fjöllum og ekki vitað af tengslum sínum við slík félög. Þeir ýmist „stórtöpuðu“ á því að geyma peninga fjarri Íslandsströndum eða settu enga peninga í félögin yfir höfuð. Flestir benda þeir svo á bankann; það var hann sem ráðlagði þeim að stofna reikninga í skattaparadísum eða gerði það hreinlega án þeirrar vitundar.
Eðli aflandsfélaga er með þeim hætti að erfitt, nær ómögulegt, er að fá upplýsingar um raunverulega eigendur þeirra og viðskipti sem um þau fara. En svo komu Panamaskjölin. Í þeim er að finna nöfn margra Íslendinga sem áttu félög sem hétu t.d. Falson & Co, M-Trade, Hola Holding, Utvortis og Dooley Securities. Og svo auðvitað Wintris.
Það er ekki ólöglegt að stofna aflandsfélag. Það er m.a. gert til að halda utan um eignir vegna viðskipta eða búsetu í öðrum löndum. En slík félög eiga sér þó dekkri hliðar og er þá tvennt iðulega nefnt: Að komast hjá skattgreiðslum og til að sveipa viðskipti sín leynd. Indriði Þorláksson, hagfræðingur, fyrrverandi ríkisskattsstjóri og ráðuneytisstjóri, orðar þetta svona í pistli á vef Kjarnans: „Með því að færa eignir sínar þangað geta þeir gengið svo frá hnútum að þeir komast hjá því að greiða skatta af tekjum af þessum eignum og viðskipti með þær eru huldar leynd.“
Svör sem íslenskir eigendur aflandsfélaga hafa veitt fjölmiðlum eftir uppljóstranir Reykjavík Media í samstarfi við fjölmiðla, sýna einmitt svart á hvítu þann leyndarhjúp sem umvefur félög í skattaskjólum. Sumum hefur komið „fullkomlega á óvart“ að nöfn þeirra séu í Panama-skjölunum. Aðrir vissu ekki af því að bankinn hefði stofnað slíkt félag í þeirra nafni eða að þeir hefðu verið skráðir fyrir þeim vegna misskilnings. Einhverjir hafa ekki fyllilega munað hvernig félagið er tilkomið, hver starfsemi þess var, ef nokkur, og hvenær það var svo afskráð. Svo segjast flestir í raun ekkert hafa grætt á þessu, nema síður sé. Og auðvitað var enginn að skjóta fé undan skatti.
Þessi svör koma ef til vill venjulegum Íslendingum sem vita upp á hár hvar þeir geyma sparifé sitt, að minnsta kosti í hvaða banka og í hvaða landi, spánskt fyrir sjónir. En í flóknum viðskiptafléttum bankanna fyrir hrun, þar sem sýslað var með fé þeirra sem eitthvað áttu, eða þeirra sem fengu fé að láni, tíðkaðist þetta í stórum stíl. Það hafa Panamaskjölin m.a. sýnt okkur.
Mbl.is tók saman kjarna þeirra svara sem íslenskir eigendur aflandsfélaga hafa veitt síðustu vikur og hverjar afleiðingarnar hafa verið fyrir þá. Röð þeirra hér að neðan er tilviljanakennd.
Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar átti aflandsfélag á Bresku Jómfrúareyjunum, nánar tiltekið á Tortóla, frá árinu 2001-2012, að því er fram kom í þætti Kastljóss í gær. Vilhjálmur hafði áður neitað því staðfastlega að eiga „aflandsfélag“ í „skattaskjóli“ eins og hann orðaði það sjálfur og lagði á það áherslu með því að setja gæsalappir utan um orðin. Sagðist hann eiga félög í Lúxemborg og á Kýpur og þau væru fullskattlögð. „Félagið er ekki í Lúxemborg vegna skattahagræðis, heldur fyrst og fremst vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis,“ útskýrði Vilhjálmur á bloggsíðu sinni þann 30. mars.
Eftir að félag í hans eigu fannst í Panamaskjölunum var hann spurður af fréttamönnum Kastljóss hvers vegna hann hefði ekki sagt frá umræddu félagi í pistlinum. Hann sagðist ekki hafa talið ástæðu til þess, enda hefði félagið á Tortóla löngu hætt starfsemi. Félagið, M-Trade, var afskráð árið 2012.
Í færslu á bloggi sínu í gær segir Vilhjálmur svo um fyrri skýringar sínar: „Ég skrifaði pistil á bloggið mitt á eyjan.is í flýti á síðkvöldi á hótelherbergi erlendis (á iPad!) í þeim tilgangi að tilkynna um afsögn mína sem gjaldkeri, þannig að nafn mitt og flokksins þvældist sem minnst fyrir þeirri mikilvægu umræðu sem þá var framundan. Það hefði óneitanlega verið réttara og skynsamlegra af mér að flýta mér hægar, bíða uns ég hafði aðgang að fullnægjandi gögnum (allt frá árinu 2000) og fara að því loknu yfir alla fosögu mála í einum og þá ítarlegri pistli.“
Vilhjálmur hætti sem gjaldkeri Samfylkingarinnar 30. mars.
Kári Arnór Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stapa, átti tvö aflandsfélög samkvæmt Panama-skjölunum. Annað, Hola Holding, var stofnað af Kaupþingi í Lúxemborg árið 1999. Seinna félagið, Utvortis limited, var stofnað árið 2004 og skráð á Tortóla.
Þegar Kári sagði sjálfur um síðustu helgi frá tilvist félagsins í Lúxemborg sagði hann að þótt erfitt væri að fullyrða um atburði sem áttu sér stað fyrir 16-17 árum, „tel ég samt nokkuð víst að ég lagði aldrei neina fjármuni í þetta félag og fékk enga fjármuni greidda frá því.“
Um hitt félagið, Utvortis, sagði hann: „Ég sé í gögnum að ég mun hafa greitt 305.200 kr. fyrir stofnun þess félags. Félagið var aldrei notað. Það var talið fram á framtölum á verðmæti stofnkostnaðar og afskrifað þremur árum síðar, sem tapað fé. Ég hafði því engan ávinning af þessum félögum og þau tengjast engum skattaundanskotum.“
Kári Arnór tilkynnti um helgina að hann hefði ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Stapa.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, átti ásamt eiginkonu sinni aflandsfélagið Wintris á Bresku jómfrúareyjum. Það var stofnað árið 2007 og var Sigmundur helmingseigandi í því til ársloka 2009. Áður en fjallað var um félagið í Kastljósi í byrjun apríl sagði Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar, frá tilvist þess í færslu á Facebook þann 15. mars, nokkrum dögum eftir að rannsóknarblaðamennirnir Sven Bergman og Jóhannes Kr. Kristjánsson, höfðu tekið viðtal við Sigmund í Ráðherrabústaðnum og spurt út í félagið. Hún sagði félagið hafa verið stofnað til að halda utan um afrakstur sölu á hlut hennar í fjölskyldufyrirtæki og að bankinn hafi talið „einfaldast að stofna erlent félag um eignirnar svo þær væru vistaðar í alþjóðlegu umhverfi og að auðvelt yrði að nálgast þær hvar svo sem búseta okkar yrði.“
Anna sagðist hafa gert það að skilyrði við bankann að allir skattar væru greiddir á Íslandi. „Það var því strax gerð grein fyrir öllum tekjum af sölunni og félagið hefur því frá upphafi verið skráð 100% í eigu minni á Íslandi, verið talið fram á skattframtölunum okkar Sigmundar hér heima og allir skattar verið greiddir samkvæmt því.“
Anna sagði það mistök að félagið hafi á sínum tíma verið skráð í 50% eigu hennar og 50% eigu Sigmundar en þau voru ekki hjón þá. „Bankinn minn úti hafði gengið út frá því að við værum hjón og ættum félagið til helminga. Það leiðréttum við á einfaldan hátt árið 2009.“
Aðstoðarmaður Sigmundar, Jóhannes Skúlason, var til svara um félagið í kjölfar færslu Önnu. Hann sagði um miðjan mars að eignir Wintris næmu rúmum milljarði og að félagið ætti kröfur á alla föllnu bankana.
Í pistli sem birtist á vef Sigmundar Davíðs 27. mars, var farið ítarlegar yfir málið frá sjónarhóli þeirra hjóna. Var ítrekað að Landsbankinn hefði ráðlagt stofnun félags á Bresku Jómfrúareyjum og að Anna hefði greitt alla skatta af því.
„Já, eignarhlutur í Wintris hefur verið færður til eignar á skattframtölum Önnu allt frá árinu 2008,“ stóð í pistlinum. Svo stóð: „Það er alrangt að félagið hafi nokkurn tímann verið í skattaskjóli og raunar er það ekki einu sinni aflandsfélag í hefðbundnum skilningi því að félagið hefur alltaf verið skattlagt á Íslandi.“
Skýringin á því að Anna geymir fé sitt erlendis var sögð sú að þau Sigmundur „töldu ekki æskilegt að eiginkona þingmanns og síðar ráðherra stundaði fjárfestingar hér á landi á sama tíma, m.a. í íslenskum fyrirtækjum.“
Þá kom fram að Anna hefði „stórtapað“ á því að geyma eignir áfram erlendis, „miðað við það ef hún hefði flutt eignirnar heim.“
Þegar Bergman spurði Sigmund um Wintris í viðtalinu í Ráðherrabústaðnum sagði hann m.a.: Umm, það er fyrirtæki, ef ég man það rétt, sem er tengt við eitt þeirra fyrirtækja sem ég gegndi stjórnarmennsku í og það hafði viðskiptareikning, sem eins og ég minntist á, hefur verið talinn fram á skattskýrslu frá því það var stofnað.“
Hann bað síðar afsökunar á því að hafa staðið sig „ömurlega“ í viðtalinu og að hann hefði nefnt „ýmislegt í óðagoti“.
Í viðtali við Morgunblaðið 9. apríl sagði hann konu sína reiðubúna að birta frekari gögn um skattamál þeirra hjóna ef aðrir forystumenn stjórnarflokkanna geri slíkt hið sama.
Það hefur hann ekki enn gert þrátt fyrir að margir forystumenn flokkanna hafi svarað þessu ákalli hans.
Sigmundur sagði af sér sem forsætisráðherra 5. apríl.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, átti aflandsfélagið Falson & Co ásamt tveimur viðskiptafélögum sínum og var það skráð á Seychelles-eyjum. Félagið var stofnað í janúar 2006. Bjarni segist hafa staðið í þeirri trú að félagið hafi verið skráð í Lúxemborg. Það hafi hins vegar ekki haft áhrif í skattalegu samhengi.
Bjarni sagði í viðtalið í Kastljósi árið 2015 að hann ætti engar eignir eða viðskipti í skattaskjólum. Þau svör segist hann hafa veitt eftir bestu vitund á þeim tíma. Annað hefði svo komið í ljós. „Það hafði engar tekjur, skuldaði ekkert, tók aldrei lán, átti engar aðrar eignir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starfsemi,“ útskýrði Bjarni.
Bjarni birti upplýsingar um skattskil sín 14. apríl.
Nafn Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, er einnig að finna í Panama-skjölunum vegna félagsins Dooley Securities sem skráð var á Tortóla í eigu hennar og eiginmanns hennar, Tómasar Sigurðssonar. Það kom Ólöfu „fullkomlega á óvart“ að hún og Tómas væru á lista yfir félög í skattaskjólum. Ólöf taldi að félaginu hefði verið slitið 2008 og aldrei notað af þeim hjónum. Ólöf sagði að félagið hefði verið í eigu Landsbankans í Lúxemborg en að Tómas hefði fengið umboð á félagið og óskað eftir því að hún fengi slíkt hið sama. Þau hafi ekki vitað að umrætt félag væri á aflandssvæði. „Ég vissi ekki nokkurn skapaðan hlut um þetta mál og það kom mér alveg í opna skjöldu,“ sagði Ólöf.
Í fréttum Kjarnans og Grapevine í gær kom fram að félag í eigu fjölskyldu Dorritar Moussaieff, eiginkonu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, hafi verið skráð á Bresku Jómfrúareyjunum frá árinu 1999 til ársins 2005. Félagið, sem heitir Lasca Finance Limited, er að finna í Panama-skjölunum. Þar kemur fram að árið 2005 seldi fjölskyldufyrirtækið Moussaieff Jewellers Ltd. tíu prósenta hlut sinn í Lasca Finance til hinna tveggja eigenda þess. Þeir voru S. Moussaieff og „Mrs.“ Moussaieff, líklega foreldrar Dorritar.
Ólafur Ragnar var í viðtali hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN í vikunni. Þar var hann m.a. spurður um aflandsfélög og fjölskyldu sína. Þá vissi hann ekkert um tilvist félagsins.
Fréttamaðurinn: „Ég þarf að spyrja þig, herra forseti, átt þú einhverja aflandsreikninga, á eiginkona þín einhverja aflandsreikninga, er eitthvað sem mun koma í ljós varðandi þig og þína fjölskyldu?“
Ólafur Ragnar: „Nei, nei, nei, nei, nei. Það verður ekki.“
Ólafur Ragnar ákvað nýverið að bjóða sig fram til forseta í sjötta sinn. Hann hefur ekki mótað afstöðu til spurninga mbl.is um möguleg áhrif aflandsfélagsins á forsetaframboð hans.
Félag sem skráð er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og er með heimilisfesti í Panama, hefur fjármagnað verkefni í Bretlandi og á Íslandi eftir hrun. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, var skráður með prókúru í félaginu og tengist mörgum verkefnanna sem það hefur fjármagnað. Þetta kom m.a. fram í ítarlegri umfjöllun Kjarnans um viðskipti þeirra hjóna.
„Ég hef verið búsett erlendis til fjölda ára,“ sagði Ingibjörg í frétt DV um tengsl hennar við aflandsfélög. „Þar af leiðandi er ég skattgreiðandi á Íslandi einungis að því leyti sem tekur til minna persónulegra eigna, fyrirtækja og tekna innanlands. Það hefur löngum verið ljóst að ég hef stundað viðskipti erlendis, og er það ekkert launungarmál, og í gegnum það tengst fjölda félaga erlendis, sem í einhverjum tilvikum kunna að flokkast sem aflandsfélög.“
Þá sagði hún einnig að ávallt hafi verið staðið skil á sköttum og gjöldum af þeim félögum sem henni tengjast.
Framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, Hrólfur Ölvisson, tengist tveimur aflandsfélögum samkvæmt Panama-skjölunum. Annars vegar félaginu Chamile Marketing skráðu á Bresku jómfrúareyjum og hins vegar Selco Finance sem stofnað var í Panama. Í Kastljósi í gær kom fram að hann hefði stofnað aflandsfélag árið 2003 í því skyni að leyna fjárfestingum í dönsku fyrirtæki.
Hrólfur hefur ekki tjáð sig enn um þessi viðskipti sín.
Í Kastljósi í gær kom fram að Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, lét stjórn lífeyrissjóðsins ekki vita af tveimur aflandsfélögum sem hann var skráður fyrir. Annað var Mika Asset, sem var skráð í Panama 2007 í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. Hitt var Fulcas Inc. sem stofnað var í Panama 2009 í gegnum Nordea-bankann.
Haft var eftir Kristjáni Erni í Kastljósi að félögin hefðu verið hugsuð fyrir erlenda fjárfestingu en ekki verið notuð. Hann hafi leitað til Landsbankans eftir ráðgjöf til að ávaxta fjármuni, sem hann hafi átt og bankinn mælt með þessari leið. Ekki hafi vakað fyrir honum að komast undan sköttum. Hann hafi þó ákveðið að hætta við að nýta Panamafélagið og verja sparifé sínu í að greiða inn á fasteignalán sitt, enda hafi staðan verið orðin breytt í kjölfar hrunsins.
Helgi S Guðmundsson, þáverandi formaður bankaráðs Seðlabankans, var skráður eigandi félags á Panama ásamt Finni Ingólfssyni fyrrverandi Seðlabankastjóra árið 2007, að því er fram kom í Kastljósi í gær. Landsbankinn stofnaði félagið fyrir þá að því er virðist til þess að lána fyrir kaupum á bréfum í bankanum sjálfum. Félagið hefði greitt skatt í Panama hefði það haft tekjur, sem aldrei varð að sögn Finns.
Svar hans til Kastljóss var eftirfarandi:
„Tilgangur Adair félagsins voru fjárfestingar. Félagið fjárfesti og var skuldsett og tapaði miklu á fjárfestingunum. Því urðu aldrei til tekjur í félaginu. Félagið hefði borgað skatt í Panama þar sem það var með heimilisfesti hefði komið til þess að einhver skattskyldur hagnaður hefði orðið til í félaginu sem ekki varð enda starfstími þess mjög stuttur. Hefðu eigendur félagsins fengið eitthvað út úr félaginu sem ekki varð þá hefðu þeir borgað fjármagnstekjuskatt af því á Íslandi.“
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, stofnaði félagið Silwood Foundation í Panama árið 2014. Júlíus sagði reyndar að ekki hafi verið um aflandsfélag að ræða, heldur lífeyris- og vörslusjóð. „Allt sem viðkemur þessum sjóði var í samræmi við íslensk lög og reglur,“ sagði hann. „Ég naut sérfræðiráðgjafar til að tryggja að rétt væri að málum staðið.“ Þá sagði hann: „Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til þess að ráðstafa fjármunum úr honum.“
Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.