„Ryðja út heiðarlegu viðskiptafólki“

„Það má kalla þetta ákveðin ruðningsáhrif aflandsfélaga,
„Það má kalla þetta ákveðin ruðningsáhrif aflandsfélaga," sagði Guðrún. mbl.is/Styrmir Kári

Guðrún Johnsen lektor í fjármálum og fyrrum rannsakandi hjá rannsóknarnefnd Alþingis, telur það ekki eiga að vera í forgrunni hvort skattar hafi verið greiddir heldur hvaða áhrif aflandsfélög hafi á virkni viðskiptalífsins. Þetta kom fram í Kastljósi kvöldsins þar sem rætt var við Guðrúnu.

Guðrún sagði opinberanir Panamaskjalanna hvalreka fyrir þá sem stunda rannsóknir á skattamálum. Eins séu þær tækifæri til að skilja til hlítar þá dýnamík sem skapast í kringum aflandsfélögin og byggja upp betra regluumhverfi í kringum fyrirtækjarekstur.

Hún rifjaði upp þá niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar að íslenskir bankar hefðu gefið út óhemju mikið af skuldabréfum á erlendum mörkuðum og fært það fjármagn heim til Íslands.

„Og þegar þeir eru komnir til Íslands þá þurfa þeir auðvitað að koma þeim pening í vinnu. Þeir gerðu það með því að búa til fyrirtækja samstæður eða fyrirtækjavef, vef fyrirtækja sem voru tengd með eignarhaldi og rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að stærstur hluti þessa fjármagns sem kom til landsins fór í lán til þeirra sem áttu líka bankana.“

Stór hluti lánanna var veittur í gegnum félög sem voru ekki innan lögsögu Íslands og rannsóknarnefndin. Heimildir rannsóknarnefndarinnar náðu aðeins til íslensku bankanna en Guðrún segir henni þó hafa tekist það sem staðfest var í Panamalekanum, að komast að því að fyrirtækin sem bankamenn hvöttu til að sett væru upp voru tengd fólki sem hafði þá náð eignarhaldi af bönkunum sjálfum.

Ruðningsáhrif aflandsfélaga

„Ef við förum yfir það, þá er alveg ljóst að þeir sem eru í þessari aðstöðu, bæði að fá lán út úr bankakerfinu, koma upp félögum í erlendri eigu, fela eignarhaldið, fá arðinn út úr kerfinu - bæði taka þeir þá ekki gengisáhættu á Íslandi, þeir borga ekki skatta, hugsanlega,  á Íslandi og eru ósýnilegir. En eftir að höftum var aflétt í áföngum hafa þeir getað komið með peningana aftur inn í íslenskt hagkerfi á 20% afslætti, að meðaltali,“ sagði Guðrún.

„Það má kalla þetta ákveðin ruðningsáhrif aflandsfélaga, það er að segja, það er verið að ryðja út heiðarlegu viðskiptafólki sem ætlar sér að borga samviskusamlega til samfélagsins og  byggja upp heilbrigt viðskiptalíf. Það á í rauninni engan sjens gagnvart svona viðskiptamönnum, sem í krafti þess að hafa ekki borgað skatta og skyldur - að öllum líkindum - geta keypt félög sem hér hafa verið til sölu frá hruni, á mun hærra verði en hinir sem ekki hafa farið þessar leiðir.“

„Stöðug barátta“

Guðrún sagði mikilvægt að horfa á málið heilstætt. Það sem gerðist fyrir hrun hafi verið í sérflokki og að það væri allt öðruvísi bankastarfsemi viðhöfð á Íslandi í dag og að hún teldi engan áhuga fyrir þeim starfsháttum sem viðhafðir voru áður. Hún sagði þó ekkert hægt að fullyrða.

„Það er í raun stöðug barátta bæði á Íslandi og útum allan heim að halda úti heilbrigðu fjármálakerfi og það er bara vakt sem þarf að standa; bæði stjórnir félaganna, fjármálaeftirlit og auðvitað stjórnmálamenn.“

Hún sagði það þó ljóst að ef stjórnmálamenn eru studdir af auðjöfrum sem hafa efnast á því að fara á svig við lögin væri hætta á því að regluverkið væri sett upp þannig að „þessir gerningar“ væru gerðir löglega. Hún sagðist þó telja vitundarvakningu í samfélaginu um að kerfi síðstu áratuga væri ekki að þjóna hagsmunum almennings.

„Ef að almenningur krefst þess ekki að leikreglunum sé breytt þá auðvitað gerist ekki neitt en almenningur krefst þess ekki nema þá aðeins að þeir átti sig á því að kerfið hafi verið að vinna gegn þeim.“

Guðrún Johnsen sagði opinberun Panamaskjalanna hvalreka.
Guðrún Johnsen sagði opinberun Panamaskjalanna hvalreka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert