„Gervimaður útlönd“ skuldaði um 100 milljarða

mbl.is/Styrmir Kári

„Gervimaður útlönd“ skuldaði um 100 milljarða við fall bankanna og átti yfir tíu prósenta hlut í um 400 íslenskum fyrirtækjum á árunum 2006 til 2008. Þetta kom fram í umfjöllun Kastljóss í kvöld. Hér er þó ekki um einn einstakling að ræða heldur samheiti yfir erlend félög þar sem eigendurnir eru óþekktir.

Kastljós fjallaði um „gervimanninn“ í kvöld og benti á að stærstu glufurnar í Rannsóknarskýrslu Alþingis mynduðust þar sem eignarhald tapaðist erlendis, sumsé að eigendur væru annað hvort skráðir sem erlend félög sem erfitt er að finna eignarhald á, eða sem „Gervimaður útlönd“ þar sem engin vissa er um hvern ræðir.

„Gervimaðurinn“ þáði rúmar tólf hundruð milljónir í arð árið 2006, rúma tvo milljarða árið 2007 og rúma 2,2 milljarða árið 2008 og var það ár í öðru sæti yfir stærstu arðþiggjendur ársins.

Kastljós greindi frá því að upplýsingar um „gervimanninn“ væru að finna í Panamaskjölunum og sagði hann smátt og smátt að birtast í kunnuglegum andlitum Íslendinga enda varpi þau ljósi á hversu algengt var að félög væru stofnuð í skattaskjólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert