„Ísland: Þjóð bastarða“

Steven Anderson hefur sterkar skoðanir á Íslendingum.
Steven Anderson hefur sterkar skoðanir á Íslendingum. Skjáskot af Youtube

„Ísland: Þjóð bastarða“ var titill predikunar umdeilds prest í Bandaríkjunum á dögunum en hann fór mikinn um hlutfall barna hér á landi sem fæðast utan hjónabands. Sagði hann að kona gæti aldrei verið hamingjusöm sem einstæð móðir og kallaði Ísland jafnframt „femínistahelvíti.“

Steven Anderson er baptistaprestur í Tempe í Arizona ríki en hann hefur vakið athygli fyrir ummæli sín m.a. gegn hinsegin fólki og gyðingum. Anderson er prestur við sjálfstæða baptistakirkju sem hann stofnaði sjálfur árið 2005 og er hún til húsa í lítilli verslunarmiðstöð í borginni.

Það er óhætt að segja að Anderson sé með sterkar skoðanir en árið 2009 vakti það mikla athygli þegar að hann sagðist biðja fyrir því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, myndi deyja. Þá hefur hann einnig kallað eftir því að samkynhneigðir verði dæmdir til dauða.

Í predikun Anderson eru bastarðar í aðalhlutverki og vitnar hann í nokkra staði í Biblíunni þar sem barneignir utan hjónabands eru fordæmdar. Segir hann að Íslendingar eigi að skammast sín fyrir fjölda „bastarða“ í landinu. Vitnar hann í umfjöllun CNN um íslenskt samfélag þar sem m.a. kemur fram að 67% barna hér á landi fæðist utan hjónabands.

 „Þeir ættu að skammast sín að allar þessar konur eru að verða óléttar án þess að vera giftar,“ sagði Anderson og vitnaði í umfjöllun CNN. „Ég veit að við vitum varla hvaða klósett við eigum að nota lengur í þessu landi en við erum allavega ekki eins slæm og Ísland.“

Predikun Anderson í heild sinni má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert