Gunnar Svavarsson, stjórnarformaður Nýs Landspítala ohf., segir afskaplega ánægjulegt að gert sé ráð fyrir milljarða framlagi ríkisins til framkvæmda meðferðarkjarna nýs spítala, samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun ríkisins, líkt og fram kom í máli heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítalans í fyrradag.
„Þetta eru ánægjuleg tíðindi og í anda þess sem Hringbrautarverkefnið hefur stefnt að, varðandi tíma- og kostnaðaráætlanir sem við höfum unnið eftir,“ sagði Gunnar í samtali við Morgunblaðið í gær.
Gunnar segir að öll verk séu á áætlun og gert sé ráð fyrir því að sjúkrahótelið verði afhent til notkunar á vormánuðum 2017 og jafnframt að hægt verði að bjóða út verkframkvæmdir við meðferðarkjarnann 2018.
„Í fjárlögum 2015 samþykkti Alþingi að veita einum milljarði króna til verksins. Árið 2016 eru tæpir tveir milljarðar ætlaðir í Nýjan Landspítala og nú stefnir í stórtíðindi, því fimm ára fjármálaáætlun ríkisins verður kynnt á næstu dögum og ég get sagt það strax að þar er í fyrsta sinn áætlað fyrir milljarða framkvæmdum við meðferðarkjarna nýs spítala sem rísa mun á lóð Landspítalans við Hringbraut í samræmi við áætlanir og ákvarðanir stjórnvalda og fyrirliggjandi skipulag. Í áætluninni er tryggt fjármagn sem gerir kleift að bjóða út framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna strax og hönnunarferlinu lýkur árið 2018,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, m.a. í ávarpi sínu á ársfundi Landspítalans, sem haldinn var í fyrradag, undir yfirskriftinni „sjúklingurinn í öndvegi“.
Meðferðarkjarninn, sjálfur spítalinn, verður langstærsta byggingin á Landspítalalóðinni við Hringbraut og tekur lengsta verktímann. Samkvæmt áætlunum munu framkvæmdir verða boðnar út að lokinni hönnun á árinu 2018, en reiknað er með að hönnunin muni kosta um 2,5 milljarða króna. Framkvæmdir við meðferðarkjarnana standa svo frá 2018 til 2023 og er áætlaður kostnaður við þær 20,5 milljarðar króna. Samtals er gert ráð fyrir kostnaði við uppbyggingu Nýs Landspítala á árunum 2017 til 2021 upp á 34,4 milljarða króna.
Í meðferðarkjarnanum sem er um 58.000 fermetrar verður megin- og mikilvægasta starfsemi spítalans. Á þriðju hæðinni verða skurðstofur, þræðingar, gjörgæsla og vöknun. Á hæðinni fyrir neðan verður myndgreiningin, smitsjúkdómadeild og ýmsar klínískar stoðdeildir.
Ný bráðamóttaka verður á fyrstu hæðinni þar sem allar bráðamóttökur spítalans verða að mestu sameinaðar í eina, geð- og barnabráðadeildir verða þó áfram í sínum sérhæfðu húsum. Legudeildir verða staðsettar á tveimur efstu hæðunum, allar með einstaklingsherbergjum. Aðrar hæðir í byggingunni tengjast tækni- og stoðrýmum, klínískum rýmum s.s. apóteki en einnig skrifstofum, fundarherbergjum og vinnurýmum starfsmanna.