Engin opinber gögn eru aðgengileg um félagið Jacinth á Guernsey. Eðli starfseminnar er því á huldu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar, skrifaði í pistli á Eyjuna í fyrrakvöld að hann hefði stofnað félagið 2009. Þangað hefði eignastýring hans flust eftir fall Kaupþings, Jacinth sé dótturfélag Meson Holding.
Fram kom á vef Kjarnans að félagið M-Trade hefði verið stofnað á Bresku Jómfrúaeyjum árið 2001 í gegnum Mossack Fonseca og lagt niður 2012. Vilhjálmur skrifar að það hafi verið dótturfélag Meson Holding.
Vegna þessara upplýsinga vék Vilhjálmur úr stjórn Kjarnans. Sagði í frétt Kjarnans að Vilhjálmur hefði neitað tengslum við Panamaskjölin. Það var í lok mars sem Vilhjálmur sagði af sér sem gjaldkeri Samfylkingar eftir umfjöllun um tengsl hans við aflandseyjar, í gegnum félag hans Meson Holding í Lúxemborg.