Markmiðið með aflandsfélagi á Guernsey um tryggingar eigna Orkuveitu Reykjavíkur, sem stjórn hennar samþykkti á síðasta ári að setja á laggirnar ef eigendur félagsins leggðu blessun sína yfir það, var að stuðla að hagstæðari kjörum. Markmiðið var ekki að reyna að komast hjá sköttum eða leyna einhverju. Þetta segir Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Ekkert varð þó af stofnun félagsins þar sem eigendurnir féllust ekki á það.
Gylfi, sem er stjórnarmaður í Orkuveitunni og sat stjórnarfund þegar stofnun aflandsfélagsins var samþykkt samhljóma, fór hörðum orðum um það sem hann kallaði aflandsvæðingu í samtali við Morgunútvarpið á Rás 1 í morgun sem hefði skapað helsjúkt samfélag og haft mjög vond áhrif á íslenskt efnahags- og viðskiptalíf. „Það en nánast sama hvar drepið er niður fæti þá koma í ljós slæm áhrif. Auðvitað hafa menn fyrst og fremst horft á skattahliðina og þá staðreynd að svona félög eru í mjög mörgum tilfellum notuð til að komast hjá skattgreiðslum,“ sagði hann.
Fram kemur í vinnuskjali Orkuveitunnar vegna fyrirhugaðrar stofnunar aflandsfélagsins á sínum tíma að iðgjöld á alþjóðlegum markaði séu hagstæðari og að talið sé að árlegur sparnaður gæti numið tugum milljóna króna á ári. Sömuleiðis kemur fram í vinnuskjalinu að tryggingafélög í Guernsey greiddu ekki tekjuskatt og væru undanþegin fjármagnstekjuskatti. Gylfi segir þó að á heildina litið hefði félagið ekki komið betur út skattalega enda hefði aukinn hagnaður á Íslandi vegna minni kostnaðar við tryggingar þýtt meiri skattgreiðslur hér á landi.
Spurður hvort þetta þýddi að ekki öll aflandsfélög væru slæm sagði Gylfi í samtali við mbl.is að starfsemi sumra slíkra félaga væri eðlileg en þau væru í miklum minnihluta. Það ætti við um það félag sem Orkuveitan hefði haft uppi hugmyndir um að setja á laggirnar og einnig félag sem Landsvirkjun til að mynda ætti í hliðstæðum tilgangi.