Ísland í fararbroddi í skattaskjólsmálum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, í ræðustól á Alþingi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, í ræðustól á Alþingi. Eggert Jóhannesson

Ísland er þegar í fararbroddi þegar kemur að því að vinna í málefnum skattaskjóla, bæði hvað varðar að afhjúpa leyndina þar og vinna gegn skattaundanskotum. Þá hafa skattayfirvöld hér heima heimildir til að sækja upplýsingar í bankakerfið, meðal annars sem snúa að viðskiptum með félög í skattaskjólum og slíkt hefur verið nýtt. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna hvort hann væri tilbúinn að taka undir með Sergei Stanishev, fyrrverandi forsætisráðherra Búlgaríu og forseta flokks evrópskra jafnaðarmanna, um að Ísland ætti að vera í fararbroddi í baráttu gegn skattaskjólum.

Sagði Bjarni í svari sínu að fyrri ríkisstjórn, auk hans og annarra þingmanna minnihlutans á þeim tíma, hefðu samþykkt svokallaða CFC löggjöf. Þar fæli meðal annars í sér viðurkenningu á lágskattasvæðum, en að fólk yrði að gefa upplýsingar um eign sína o.fl. Með þessu hafi verið gerð umgjörð fyrir fólk að eiga eignir í þessum löndum, svo framarlega sem það væri ekki brot á skattareglum.

Sagði hann með ólíkindum að nú vildu þeir sem hefðu samþykkt þessa umgjörð stofna rannsóknarnefnd og birta nöfn allra þeirra sem hafi fylgt lögum og skráð eignir sínar eins og vera bar hjá skattinum.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Árni sagði þá að skattaskjól gögnuðust aðeins til að fela eignarhald og koma sköttum undan. Spurði hann Bjarna hvort hann myndi segjast mótfallinn notkun skattaskjóla almennt.

Bjarni svaraði því til að hann myndi vilja reyna að koma í veg fyrir skattsvik og annað ólöglegt og að meðal annars hefði fjárveiting verið veitt til að kaupa skattaupplýsingar fyrir tugi milljóna vegna þessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert