Leitað að sprengju í Herjólfi

Herjólfur lá við bryggju í Eyjum en er nú lagður …
Herjólfur lá við bryggju í Eyjum en er nú lagður af stað til Landeyjahafnar. mbl.is/Árni Sæberg

Leit er lokið í Herjólfi vegna sprengjuhótunar sem barst í morgun. Um borð var hópur erlendra nema á leið til Eyja og fékk einn þeirra smáskilaboð um að sprengja væri um borð. Engin sprengja eða annað grunsamlegt fannst í skipinu og er það farið úr höfn.

Eyjar.net sögðu fyrst frá.

Sprengjuleit var gerð um borð í Herjólfi nú í morgun eftir að erlendum nemanda sem var á ferð með skólahópi barst sprengjuhótun með sms skilaboðum í síma sinn.

Gunnlaugur Grettisson rekstrarstjóri Herjólfs segir nemandann hafa brugðist rétt við með því að setja sig í samband við skipstjórnendur, sem hafi einnig brugðist rétt við með því að hafa samband við lögreglu sem leitaði í skipinu þegar það kom til Eyja.

Engin sprengja fannst um borð í Herjólfi og hefur Gunnlaugur óstaðfestar fréttir af því að sprengjuhótunin hafi verið tilkomin vegna vírus í síma nemandans.

Uppfært kl. 11.14

„Það kemur upp svokölluð hotspot-hótun. Farþegi, nemandi í stórum erlendum nemendahópi, opnar símann sinn og fær ónafngreinda hótun um að það sé sprengja í um borð. Ekki kemur fram í hvaða skipi, bara um að það sé sprengja um borð.

Þeir sem þekkja vel til segja að það sé tiltölulega auðvelt að gera þetta, setja hótanir inn á vefsvæði þar sem þráðlaust net og þá fer sendingin á símann sem fer fyrstur á netið. Þessu var ekki beint til stúlkunnar, þessu er bara beint inn á þetta opna vefsvæði,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is. 

Skipið var í höfn í Vestmannaeyjum þegar hótunin barst. Áhöfnin hafði þegar í stað samband við lögreglu. „Lögreglan fór strax í sína ferla eins og eðlilegt er. Sérsveitinni var gert viðvart, farið var um borð og þá komumst við að því hvernig hótunin barst, í gegnum þetta net, og það kannað. Síðan var leitað um borð og var að áhöfn skipsins og lögregla sem gerði það,“ segir Páley.

Páley segir að hótanir sem þessar séu tiltölulega algengar. „Sumum kann að þykja þetta sniðugur hrekkur, sem það er alls ekki. Það er tiltölulega algengt að svona sé sett inn á opin vefsvæði án þess að nokkur fótur sé fyrir því,“ segir hún.

Búið er að leita í skipinu og er það farið úr höfn í Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert