„Stödd í miðju bílslysi sem er sýnt hægt“

Róbert Marshall
Róbert Marshall mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Stjórnarandstaðan hóf þingfund í dag með umræðu undir liðnum fundarstjórn þingsins þar sem ítrekað var gagnrýnt að ekki væri boðað strax til þingkosninga í kjölfar upplýsinga sem komu fram í Panama-skjölunum og afsagnar fyrrverandi forsætisráðherra.

Lægra settir menn sagt af sér

Helgi Hörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna með að benda á að núna hefðu lægra settir menn sagt af sér en fjármálaráðherra vegna tengsla við skattaskjól og nefndi tvo framkvæmdastjóra lífeyrissjóða og framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins í því samhengi. Sagði hann Bjarna Benediktsson þó áfram sitja þrátt fyrir sín tengsl við málið. Þá vilji ríkisstjórnin ekki segja af sér og rjúfa til þings og boða til kosninga, heldur væri með 75 mála málaskrá sem væri að þvælast fyrir þinghaldi.

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir með Helga og sagði Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að það myndi ekki líðast í öðrum þróuðum ríkjum að ráðherra skattamála myndi sitja áfram eftir svona mál. Sagði hún að Íslendingar hefðu státað sig af því að vera stéttlaust land. „En þotuliðið ætlar sér aðrar leikreglur,“ sagði Ólína.

„Stödd í miðju bílslysi sem er sýnt hægt“

Bjarni svaraði því til að stundum væri sagt að ríkisstjórnin væri verklaus vegna fárra mála, en núna væru verkefnin orðin of mörg, samanber umræðuna um þingmálaskrána. Benti hann á að á fundum með stjórnarandstöðunni hefðu stjórnarflokkarnir farið yfir hvaða málum þyrfti að ljúka. Svo væri gengið til kosninga í haust. Þá hefði þessi umræða áður verið tekin á þinginu.

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði stóra málið vera að ríkisstjórnin væri þegar að hrökklast frá völdum. Hún hefði viðurkennt það með að ætla að flýta kosningum. „Við erum stödd í miðju bílslysi sem er sýnt hægt,“ sagði hann.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Stjórnarflokkarnir hlakka til kosninga

Helgi kom aftur í ræðustól og sagði plan ríkisstjórnarinnar ekki vera neitt og að ríkisstjórnin ætti að vera tilbúin að mæta kjósendum sínum í kosningum.

Bjarni svaraði því til að stjórnarflokkarnir hlökkuðu til kosninga. Hann sagði aftur á móti að allar umræður um vantraust ríkisstjórnarinnar hefðu verið afgreiddar þegar málið var tekið fyrir á þinginu. Þá sagði hann rangt að ekkert væri í gangi í tengslum við málefni skattaskjóla.

Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna, sagði að enn ætti ríkisstjórnin eftir að svara því um hvaða brýnu mál væri að ræða sem þessi ríkisstjórn þyrfti að sinna sem aðrar ríkisstjórnir gætu ekki sinnt. Benti hún á að á málaskrá ríkisstjórnarinnar væru mál um timburvörur, skógræktarstofnun og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka