Hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra eru viðstaddir umræðu um þingsályktunartillögu um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga á Alþingi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu stjórnarliða harðlega fyrir að taka ekki þátt í umræðum um tillöguna.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar sem felur í sér að Alþingi stofni rannsóknarnefnd sem kanni fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum og eru í skattaskjólum. Hún miðli upplýsingum til skattayfirvalda eftir atvikum.
Gagnrýndi hún Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, harðlega fyrir að hafa talað af léttúð um aflandsfélög og skattaskjól. Svandís sagði skattaskjól vettvang umfangsmikilla skattsvika sem talin væru slæm í sjálfu sér. Þess vegna séu þeir sem fara með fé sitt í gegnum þau þátttakendur.
Bjarni hafi valið að láta umræðuna um aflandsfélög og skattaskjól snúast um hvort framin hafi verið skattsvik því að það henti honum sem sjálfur hafi átt í aflandsfélagi. Svandís sagði það óásættanlegt með öllu. Aðrar yfirlýsingar hans, meðal annars um heilbrigða skattalega samkeppni af skattskjólum, segi þjóðinni og heiminum að aflandsfélagastarfsemi sé siðleg og í lagi.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi stjórnarþingmenn harðlega fyrir að taka ekki þátt í umræðum um tillöguna og að hvorki Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, né Bjarni væru viðstaddir hana. Aðeins Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var þá á mælendaskrá um tillöguna úr stjórnarliðinu.