Stefnt er að því að heildarskuldir hins opinbera verði komin niður í 26% af vergri landsframleiðslu árið 2021 miðað við 34% á næsta ári samkvæmt nýrri fjármálaáætlun hins opinbera til næstu fimm ára. Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynntu áætlunina sem og fjármálastefnu hins opinbera vegna sama tímabils á blaðamannafundi sem fram fór í Þjóðminjasafninu í dag.
Fram kom í máli Sigurðar Inga að stefnt væri ennfremur að því að á næstu fimm árum yrði 1% af landsframleiðslu í afgang af rekstri hins opinbera á hverju ári sem næmi 170 milljörðum samanlagt á tímabilinu. „Þessi afgangur leiðir til þess að heildarskuldir lækka úr 34% árið 2017 í 26% árið 2021. Ríkið mun því ná bæði afkomu- og skuldamarkmiðum laga um opinber fjármál á þessu tímabili.“
Frétt mbl.is: Hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi
Forsætisráðherra sagði að þegar núverandi ríkisstjórn hefði tekið við árið 2013 hefðu heildarskuldir hins opinbera verið ríflega 60% af landsframleiðslu samkvæmt skilgreiningu laganna en í dag væru þær 500 milljörðum lægri eða um 40% af landsframleiðslu. Á árinu 2018 væri ráðgert að skuldirnar væru komnar niður fyrir 30% af landsframleiðslu.
Gert væri ráð fyrir afgangur af rekstri ríkissjóðs á þessu ári yrði vel yfir 400 milljarðar. Fyrst og fremst vegna stöðugleikaframlaga í tengslum við uppgjör slitabúa föllnu bankanna. „Þetta er frábær árangur,“ sagði Sigurður Ingi. Þessi árangur gerði það að vekum að hægt yrði að auka velferðarútgjöld á næstu árum. Ekki síst heilbrigðismálanna.