Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, var viðstaddur lokahátíð undirskriftasöfnunarinnar „Endurreisum heilbrigðiskerfið“ sem fram fór í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í dag. Þar afhenti Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, veglegan bunka með 86.729 undirskriftum.
„Þetta er góður dagur og maður er að sjá hversu mikill samhljómurinn er meðal þess gríðarlega fjölda sem tekur þátt í undirskriftarsöfnun til að standa þétt að baki íslenska heilbrigðiskerfisins og uppbyggingu þess,“ segir Kristján Þór í samtali við mbl.is.
Í fjármálaáætlun til næstu fimm ára sem ríkisstjórnin kynnti í gær er meðal annars gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega, að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar í 500 þús. kr. og framkvæmdir við nýjan Landspítala verði boðnar út árið 2018. Þá er einnig gert ráð fyrir þremur nýjum hjúkrunarheimilum.
Frétt mbl.is: „86.000 radda kór hefur tjáð sig“
Í áætluninni er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála verði aukin verulega á næstu árum þannig að þau verði orðin ríflega 30 milljörðum króna hærri árið 2021 og verði þar með orðin ríflega 200 milljarðar króna á ári. Það svarar til þess að framlögin verði aukin um 18% að raunvirði yfir tímabilið. Sú aukning er fyrir utan allar launahækkanir sem munu bætast við á tímabilinu auk annarra verðlagsbreytinga. Þá nema framlög til kaupa á tækjabúnaði fyrir LSH og FSA 5 milljörðum á árunum 2016-2021 og 2,5 milljörðum verður varið til styttingar á biðlistum á sama tímabili.
Kristján Þór segir segir áætlunina vera í tak við þær kröfur sem undirskriftarlistinn standi fyrir, það er að 11% af vergri landsframleiðslu fari til heilbrigðismála.
„Þetta er á góðu róli og í fullu samræmi við þær áherslur sem þessi ríkisstjórn hefur sett fram og staðið við. Þetta gefur okkur færi til að styrkja mjög alla innviði í þessari heilbrigðisþjónustu.“