Afhendir forsætisráðherra 86.729 undirskriftir

Kári Stefánsson mun afhenda forsætisráðherra undirskriftarlista í dag þar sem …
Kári Stefánsson mun afhenda forsætisráðherra undirskriftarlista í dag þar sem krafist er að 11% af vergri þjóðarframleiðslu renni til heilbrigðismála. Ljósmynd/Picasa

Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa boðað komu sína á lokahátíð undirskriftasöfnunarinnar „Endurreisum heilbrigðiskerfið“ sem fer fram klukkan 13:30 í dag í fyrirlestrasal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8. Kári Stefánsson mun afhenda stjórnvöldum undirskriftalistann og fulltrúum þingflokka er boðið að flytja stutt ávörp.


Auk ráðherranna verða fulltrúar allra stjórnmálaflokka á svæðinu. „Það verður vel mannað af þeim sem ráða landinu,“ segir Kári Stefánsson í samtali við mbl.is.

Alls hafa 86.729 undirskriftir safnast frá því um miðjan janúar og er undirskriftarsöfnunin orðin sú fjölmennasta sem framkvæmd hefur verið hér á landi. „Mér sýnist þetta vera farið að hafa töluverð áhrif á umræðuna um heilbrigðismál,“ segir Kári.

Ríkisstjórnin kynnti nýja fjármálaáætlun til næstu fimm ára í gær, en þar er meðal annars gert ráð fyrir að framlög til heil­brigðismála verði auk­in veru­lega á næstu árum og verði orðin ríf­lega 200 millj­arðar króna á ári árið 2021. Þá verða hámarksgreiðslur úr fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í 500 þús. kr. og fram­kvæmd­ir við nýj­an Land­spít­ala verða boðnar út árið 2018.

Sjá frétt mbl.is: Hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi

Kári segir þessa nýju áætlun vera skref í rétt átt. „Mér sýnist á nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að hún vilji auka árlegt framlag til heilbrigðismála upp í 200 milljarða á fimm árum, sem er þá 30 milljörðum meira en það er í dag. Ef af líkum lætur þá kemur það okkur langleiðina á þann stað sem við höfum verið að tala um. Mér finnst að þetta bendi til þess að menn séu að taka við sér, að stjórnmálamenn séu að átta sig á því að þetta er vilji fólksins í landinu og það er í samræmi við grundvallarhugmyndina að baki lýðræðinu, að þeir sem landinu stjórna hverju sinni fari að vilja fólksins.“

Athöfnin í dag er opin öllum almenningi. Húsið opnar kl. 13:00 með tónlist og kaffiveitingum. Kári segist ekki hafa minnstu hugmynd um hversu fjölmennt verður. „Það verður bara að koma í ljós.“

Skjáskot/Endurreisn.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka