Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff forsetafrú mættu í morgun til guðsþjónustu í hallarkirkjunni í Svíþjóð í tilefni af 70 ára afmæli Karls Gústafs Svíakonungs. Margt kóngafólk og þjóðhöfðingjar eru meðal gesta í afmæli konungsins.
Eftir athöfnina fóru konungshjónin, Silvía og Karl Gústaf, út á svalir hallarinnar, þar sem þau voru hyllt og afmælissöngurinn var sunginn af þúsundum manna sem voru saman komnar til að fagna afmæli konungs.
Lagið „All you need is love“ var sungið fyrir kónginn í ráðhúsinu í Stokkhólmi. Sýnt var frá söngnum í beinni útsendingu í sænska ríkissjónvarpinu og þar mátti sjá að Ólafur og Dorrit sungu með og Dorrit dillaði sér í takt við tónlistina.
Meðal atburða í hátíðarhöldunum í dag eru auk guðþjónustunnar í hallarkirkjunni, hádegisverður í Ráðhúsi Stokkhólmsborgar og hátíðarkvöldverður í konungshöllinni. Á morgun, sunnudag, snæða íslensku forsetahjónin hádegisverð með konungi og fjölskyldu hans í konungshöllinni.