Á ferðasíðuna TripAdvisor kom í dag inn frásögn erlends ferðamanns sem sagði farir sínar ekki sléttar af ökuferð fjölskyldu sinnar að Stokknesi á suðausturhorni landsins í gær. Þetta hafi verið í þriðja skipti sem faðir hans heimsótti svæðið á þriggja ára tímabili og hann hafi aldrei þurft að greiða, fyrr en í gær þegar fjölskyldan var rukkuð um 800 krónur á mann.
„Sem er fáránlega hátt ef haft er í huga að við vildum bara taka mynd og fara svo,“ segir í lýsingu ferðamannsins sem kallar sig Chrevi á TripAdvisor.
Segir hann landeigandann hafa hrópað á eftir þeim. Landeigandinn hafi verið ógnandi og hótað föður sínum og þá hafi hann tekið upp vasahníf og gefið í skyn að hann myndi skemma bíl þeirra. Þau hafi þrjóskast við að fara og þess í stað tekið sinn tíma í að taka myndir. Þegar þau hafi síðan ætlað að yfirgefa svæðið þá hafi landeigandinn verið búinn að þvera veginn með bíl sínum svo þau gætu ekki farið. „Við hringdum þá á lögregluna þar sem í raun var búið að taka okkur í gíslingu. Enginn íslensk lög segja til um hvort eigandi geti eða geti ekki rukkað inn á land sitt. Þannig að ef hann gerir það þá getur maður neitað,“ segir í frásögn Chrevi.
Lögreglan hafi skipað landeigandanum að færa bíl sinn sem hann hafi gert, en þá hafi hann viljað leggja fram opinbera kæru og til að forðast slíkt vesen þá hafi þau borgað. „Ég mæli með því við alla að þeir fari og skoði þessa fjöru því hún er stórkostleg, en leggið fyrir utan land hans og farið fótgangandi,“ segir Chrevi, því þannig megi komast hjá margvíslegu veseni „eins og að borga pening (3200 krónur í okkar tilfelli) til aðgangsharðs einstaklings sem hefur virkilega litað upplifun okkar af Íslandi.“
Ómar Antonsson, eigandi jarðarinnar, segir hreina lygi að fólki hafi verið hótað með hníf. „Það rétta er að þau neituðu að borga aðgangseyri sem við erum búin að rukka inn á svæðið hátt í þriðja ár. Þau fóru inn á svæðið og neituðu að borga þannig að bifreið þeirra var bara stoppuð af þangað til þau borguðu. Lögregla kom í málið og þau borguðu þegar hún var kominn á staðinn.“
Ómar segir viss misskilnings gæta hjá sumum ferðamönnum varðandi gjaldtöku á Íslandi. „Þetta er dálítið ruglingslegt fyrir fólk, því á Geysi og fleiri slíkum stöðum þá hefur því háttað þannig til að það hafa ekki allir verið sammála um að taka gjald og á því hefur gjaldtakan fallið.“
Samkvæmt jarðarlögum þá þurfi allir landeigendur nefnilega að vera sammála um að rukkað sé inn. Þar sem hrein eign sé á landsvæði þá sé þó vel löglegt að rukka um aðgangseyri. Ómar nefnir Sognið sem dæmi, sem og Horn, þar sem Stokknes er. „Það er enginn spurning um að það er heimild fyrir gjaldtökunni. En það kemur stundum upp að fólk heldur að það megi ekki rukka inn og að það eigi allt að vera frítt á Íslandi.“
Vilji fólk ekki borga þá fái það ekki þjónustuna og svo hafi verið í þessu tilfelli. Hann segir fólkið hafa verið beðið um að fara en það hafi þrjóskast við.
„Það er að borga fyrir að keyra inn á mitt einkaland og taka myndir.“ Spurður hvort gjaldið sé hátt, segir hann það byggjast á því að verið sé að veita fólki þjónustu. Inni í gjaldinu sé falið bílastæði, salernisaðstaða og svo upplýsingar „og svo er fólk að keyra eftir 6 km löngum einkavegi.“
Fólk hafi val um hvort það komi inn á svæðið, ef það sé ósátt við verðið þá geti það bara sleppt því. „Þó nánast öllum finnist þetta bara sanngjarnt, þá koma svona einstaka furðufuglar.“
„Þetta er eina aðferðin sem er hægt að hafa úti í sveit, það er að stoppa þau af þannig að þau fari heldur ekki út af svæðinu nema gera grein fyrir sínu ferðalagi. Þetta er bara afleggjari heim á minn bæ og það er bara frjálst val fyrir menn hvort þeir fara þangað eða ekki.“
Ómar segir um 15.000 bíla fara eftir vegi sínum árlega. „Það er fyrirferð í þessu. Það fylgir þessu bílaumferð og ég þarf þá að halda veginum við, en fyrir þetta gjald hafa menn um 5000 hektara jörð að leigu í heilan dag.“
Það sé líka misskilningur hjá Chevri að fólk spari fé með því að ganga inn að Stokknesi. „Fólk borgar þó það gangi. Flestir sem hingað kaupa sig inn eru að gera það til að fara göngutúra, því sumar leiðirnar er eingöngu heimilt að fara gangandi. Það er hægt að keyra um 1,5 km veg eftir að komið er að afgreiðslunni, allt annað eru gönguleiðir.“