„Það er kominn tími til að hætta útúrsnúningum og undanbrögðum. Kröfum um að byggja hér upp öflugt velferðarkerfi hefur verið svarað með fullyrðingum um að ekki séu til peningar. Ekki nema von, þeir eru jú komnir í vasa auðmanna,“ segir meðal annars í ávarpi verkalýðs- og stéttarfélaganna í Reykjavík í tilefni af baráttudegi verkalýðsins 1. maí. þetta eigi meðal annars við í húsnæðismálum, heilbrigðismálum og í almannatryggingakerfinu.
Fram kemur að stjórnvöld hafi breytt skattkerfinu til hagsbóta fyrir þá sem auðmenn. „Loforð stjórnvalda um að skattalækkanir og breytingar á innflutningsgjöldum myndu skila sér í lægra vöruverði, hafa ekki gengið eftir. Þess í stað stinga grósserarnir milligjöfinni í eigin vasa og neytendur, almenningur í landinu, situr eftir með sárt ennið. Það er löngu tímabært að þessum skemmdarverkum á samfélagi okkar ljúki og við vinnum til baka þjóðfélag, sem við getum stolt sagt að við eigum saman.“
Til að stoppa upp í sífellt stækkandi göt séu álögur á sjúklinga auknar. „Krabbameinssjúklingar, og aðrir sem kljást við illvíga sjúkdóma, þurfa að greiða jafnvel hundruð þúsunda fyrir meðferð sína. Við erfiða baráttu, jafnvel upp á líf og dauða, bætast fjárhagsáhyggjur sem almenningur í landinu er sammála um að ekki eigi rétt á sér. Stjórnvöld fullyrða síðan að ekki sé mögulegt að reka hér almennilegt heilbrigðiskerfi og þau eru markvisst að þróa kerfið í átt að aukinni einkavæðingu með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir almenning.“
Mikilvægt sé að íslenskt launafólk standi þétt saman í baráttunni fyrir jafnrétti og samstöðu. „Atvinnurekendur eru vel skipulagður hagsmunahópur sem hefur það markmið að hámarka arðgreiðslur til sín og halda launum starfsmanna niðri. Í aðdraganda allra kjarasamninga byrjar skipulagður grátur þeirra um að launahækkanir munu kollkeyra atvinnulífið og þjóðfélagið. Á næsta aðalfundi fyrirtækjanna ákveða þeir síðan að greiða sér milljarða í arð.“
Ályktuninni lýkur síðan á þessum orðum: „Við þurfum að reka samfélagslega skemmdarverkamenn af höndum okkar og við þurfum að sýna atvinnurekendum að við munum ekki þola óréttlæti og ölmusur þegar kemur að launum fyrir heiðarlega vinnu. Við verðum að reka spillta og ónothæfa þingmenn út úr sölum Alþingis og við verðum að treysta samfélagslegar undirstöður okkar; heilbrigðiskerfið, menntakerfið og íslenskt velferðarkerfi eins og það leggur sig.“