Þjóðarhagur vænkast og horfur næstu misserin eru góðar samkvæmt endurskoðaðri þjóðhagsspá hagdeildar ASÍ til næstu tveggja ára.
Gangi spá hagdeildar eftir verður samfelldur hagvöxtur hér á landi í átta ár. Spáð er kraftmiklum hagvexti á þessu ári, 4,9%, og að jafnaði 3,8% vexti á árunum 2017 til 2018. Vöxturinn hvílir á vaxandi kaupmætti, uppgangi í ferðaþjónustu og aukinni fjármunamyndun atvinnuveganna og sést bæði í auknum þjóðarútgjöldum og áframhaldandi vexti útflutnings, að því er kemur fram í samantekt ASÍ.
Þar segir að stórar áskoranir finnst í slíkum efnahagslegum uppgangi og mikilvægt að hagstjórn miði að því að tryggja efnahagslegan stöðugleika á næstu árum.
„Skýr merki um spennu sjást nú á vinnumarkaði, vöxtur innlendrar eftirspurnar er mikill en hagfelld þróun á hrávöruverði og gengi krónunnar hafa haldið verðbólgu lágri og verðstöðugleikinn er því brothættur. Verðbólga helst lág á þessu ári, 1,9% að jafnaði, en þrýstingur til hækkunar verðlags mun aukast eftir því sem líður á árið og verðbólga verður um 3,1% á árunum 2017–2018 að mati hagdeildar ASÍ. Nokkur óvissa ríkir um gengi krónunnar og myndi frekari styrking draga úr verðbólguþrýstingi,“ segir í samantektinni.
„Hagdeildin gerir ráð fyrir kraftmiklum vexti einkaneyslunnar á spátímanum sem rekja má til jákvæðrar þróunar á fjárhagsstöðu heimilanna. Hagvísar styðja mat hagdeildar upp á 6% vöxt einkaneyslunnar á þessu ári og því útlit fyrir að vöxturinn verði sá mesti frá árinu 2007.“
Einnig er áætlað að fjármunamyndun aukist um 12,4% á þessu ári, 11,6% á því næsta og 7,7% árið 2018. Fjárfesting mun í fyrsta sinn frá hruni nema yfir 20% af vergri landsframleiðslu á næsta ári.
„Fjárfesting hins opinbera er í sögulega lágmarki og ólíklegt að breytingar verði þar á í fyrirsjáanlegri framtíð þrátt fyrir batnandi stöðu ríkisfjármála, uppsafnaða þörf fyrir innviðafjárfestingu og fjölgun ferðamanna. Íbúðafjárfesting hefur tekið við sér eftir samdrátt á síðasta ári en aukið framboð er ekki nægjanlegt til að mæta vaxandi eftirspurn eftir nýju húsnæði og því útlit fyrir að ekki dragi úr hækkun húsnæðisverðs,“ segir í samantektinni.
Gert er ráð fyrir því að ferðaþjónustan muni halda áfram vexti útflutnings á spátímanum og gerir hagdeildin ráð fyrir 6,4% útflutningsvexti á þessu ári og að jafnaði 4,2% vexti á árunum 2017 til 2018.
Mikill vöxtur innflutnings dregur úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum milli ára sem er áætlaður 6,1% á þessu ári en 4,9% í lok spátímans.
„Skýr merki um spennu sjást á vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka mælist tæp 83%, þriðjungur fyrirtækja finnur fyrir skorti á starfsfólki og útlit er fyrir að eftirspurn eftir vinnuafli haldi áfram að aukast á næstunni. Erfitt mun reynast að mæta aukinni vinnuaflseftirspurn innanlands og því líklegt að erlendu starfsfólki fjölgi. Ofangreind þróun mun draga úr atvinnuleysi og það kann að verða á bilinu 2,4–2,6% á spátímanum.“